Viðskipti innlent

Rússneskar pönnukökur

Kaup SÍF á franska matvælafyrirtækinu Labeyrie fyrir 29 milljarða króna hafa vakið talsverða athygli. Fyrirtækið framleiðir kældar matvörur á borð við reyktan lax, andalifur og smurrétti, að ógleymdum rússneskum pönnukökum en þeim hafa Íslendingar ekki átt að venjast í gegnum tíðina. Árni Bergmann, rithöfundur, er þaulkunnugur rússneskri matarmenningu og segir að þarlendar pönnukökur séu ekki sætar eins og hér tíðkist þótt að þær séu bakaðar á svipaðan hátt. "Þær eru yfirleitt borðaðar með sýrðum rjóma en síðan er alls kyns sjávarfangi bætt ofan á, til dæmis kavíar, reyktum laxi, silungi eða síld svo og eggjum, sveppum og ýmsu þess háttar," segir Árni en upphaflega var þessa réttar neytt á föstunni þannig að fátítt er að setja kjöt á rússnesku pönnukökurnar. Rússar drekka vodka við ýmis tækifæri og það gera þeir líka þegar pönnukökur, eða blínur eins og þær eru kallaðar á frummálinu, eru á borðum en einnig er vinsælt að skola þeim niður með öli. Árni segir að blínur séu reglulega snæddar á heimili hans og konu sinnar, Lenu, en hún hefur verið dugleg við að kenna Íslendingum að elda og borða þessar forvitnilegu pönnukökur.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×