Bush með 2% forskot

George Bush er með tveggja prósentustiga forskot á John Kerry samkvæmt nýjustu könnun Reuters og Zogby sem birt var á tólfta tímanum. Þetta er annar dagurinn í röð sem Bush mælist með forskot hjá Reuters og Zogby en hann nýtur fylgis 47 prósenta aðspurðra og Kerry 45 prósenta. John Zogby, yfirmaður Zogby-könnunarfyrirtækisins, segir að þetta minni óþægilega mikið á stöðuna á sama tíma fyrir fjórum árum. Skekkjumörk í þessari könnun voru 2,9 prósent.