Innlent

Dómarar velji ekki samstarfsmenn

"Hæstaréttardómarar eiga ekki að geta valið sér sína samstarfsmenn í réttinum," segir Geir H. Haarde, settur dómsmálaráðherra er skipaði Jón Steinar Gunnlaugsson hæstaréttardómara í gær. Aðspurður segir hann ekki víst að ástæða sé til þess að Hæstiréttur veiti áfram umsögn um þá sem sækjast eftir stöðunni. "Mér finnst ástæða til að breyta lögunum, en það kemur í hlut dómsmálaráðuneytisins að skoða það í fullri alvöru," segir Geir. Hann sagði að samsetning réttarins hefði ráðið um val hans. Spurður hvort sömu rök hefðu ekki gilt um það að skipa konu í réttinn, þar sem aðeins tvær af níu dómurum eru konur, segir hann það auðvitað sjónarmið sem þurfi að hafa í huga. "Að vísu gerir Hæstiréttur ekkert sjálfur með það í sinni umsögn. Það er athyglisvert að hann geri það ekki þótt hann nefni níu önnur atriði," segir Geir. Spurður hvort ekki væri rétt að miða auglýsingar um starfið við þær kröfur sem dómsmálaráðherra gerði til umsækjenda í ljósi æskilegrar samsetningar réttarins, segir Geir ef til vill ástæðu til þess. Það muni koma inn í hugsanlegar breytingar á lögum um skipan hæstaréttardómara.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×