Viðskipti innlent

Hafði enga aðkomu að kaupunum

Gunnlaugur Sævar Gunnlaugsson, formaður útvarpsráðs, segist enga aðkomu hafa haft að kaupum Símans á fjórðungshlut í sjónvarpsstöðinni Skjá einum og sýningarréttinum á enska boltanum. Eins og fram kom í fréttum Stöðvar 2 í gærkvöld hefur fréttastofan áreiðanlegar heimildir fyrir því að Gunnlaugur Sævar hafi haft milligöngu um söluna á hlut í Skjá einum nýverið og menntamálaráðherra hefur sagst mundu skoða málið. Samkvæmt heimildum mun Gunnlaugur Sævar hafa verið ákafur talsmaður þess að Norðurljós, sem reka meðal annars fréttastofu Stöðvar tvö og Bylgjunnar, myndu ekki ná að komast yfir enska boltann. Gunnlaugur Sævar er fulltrúi Sjálfstæðisflokks í útvarpsráði og gegnir formennsku í ráðinu. Gunnlaugur baðst undan viðtali en sagði í samtali við fréttamanna að hann neitaði því alfarið að hafa komið nálægt kaupunum. Hann sagðist gera ráð fyrir að forstjóri Símans og stjórn fyrirtækisins tækju slíkar ákvarðanir. Hann væri enginn hlutabréfamiðlari.  





Fleiri fréttir

Sjá meira


×