Viðskipti innlent

Fjármálaeftirlit fær gögn

Fjármálaeftirlitið hefur fengið gögn frá Landsbankanum vegna rannsóknar á viðskiptum Burðaráss með hlutabréf í Íslandsbanka. Kaup Landsbankans og tengdra aðila á hlutabréfum í Íslandsbanka snemma á árinu vöktu mikla athygli og urðu meðal annars til þess að þáverandi bankaráðsformaður Íslandsbanka, Kristján Ragnarsson, sendi Landsbankamönnum sneið á aðalfundi félagsins. Kaupin voru rakin til áhuga Landsbankamanna á að ná fram sameiningu við Íslandsbanka. Tvær tilkynningar til Kauphallar Íslands í síðustu viku um viðskipti bankaráðsmanna Íslandsbanka með bréf í Íslandsbanka eru taldar tengjast þessu valdatafli og hafa vakið grunsemdir um að ekki sé allt sem sýnist. Annarsvegar tilkynning um að Orri Vigfússon hefði endurselt Burðarási hlutabréf sem hann keypti í febrúar og hins vegar tilkynning um að framvirkur samningur Helga Magnússonar um kaup á bréfum Landsbankans í Íslandsbanka hefði verið framlengdur. Samkvæmt heimildum Stöðvar tvö hefur Fjármálaeftirlitið nú hafið rannsókn á þessum viðskiptum og óskað eftir og fengið gögn frá Landsbankanum. Í viðskiptalífinu telja margir að þessar tilkynningar í síðustu viku styrki grunsemdir um að þessir tveir einstaklingar séu í raun leppar fyrir Landsbankann og Burðarás. Valgerður Sverrisdóttir, viðskiptaráðherra, var spurð að því hvort verið væri að fara á svig við reglur sem takmarka möguleika banka til að eiga hlut í öðrum banka án sérstakra heimilda. Valgerður segir fjármálaeftirlitið hafa þarna mikilvægu hlutverki að gegna. Ef eitthvað sé hæpið sem hafi farið þarna fram verði það skoðað af þar til bærum yfirvöldum. Hún segist ekki hafa neina vitneskju um hvort fjármálaeftirlitið sé að skoða málið þar sem það starfi alveg sjálfstætt.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×