Viðskipti innlent

Tekjur af þjónustu aukast

Þjónustugreinarnar eru farnar að nálgast hlutfall gjaldeyristekna sem sjávarútvegur aflar. 3,7 prósentustiga aukning varð á gjaldeyristekjum þjóðarinnar af þjónustustarfsemi í fyrra og var þá 36,6% af heildargjaldeyristekjum. Gjaldeyristekjur sjávarútvegs var 39,5% af heildargjaldeyristekjum á síðasta ári. Hlutfall þjónustugreinanna hefur farið hækkandi síðustu ár. Árið 2002 var hlutfallið 33,9%. Á heimasíðu Samtaka verslunar og þjónustu segir að óhætt sé að fara að skrifa kennslubækurnar upp á nýtt og draga fram þá staðreynd að undirstöðuatvinnuvegur þjóðarinnar sé þjónustustarfsemi. Upplýsingar um gjaldeyristekjur mismunandi starfsgreina má lesa úr nýrri samantekt Seðlabankans um greiðslujöfnuð við útlönd. Þar kemur fram að stærstur hluti gjaldeyristekna þjónustugreina er vegna samgangna, þar næst kemur liðurinn önnur þjónusta, sem væntanlega er að stærstum hluta fjármálastarfsemi og í þriðja lagi liðurinn ferðalög.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×