Viðskipti innlent

Skulda skýringar á viðskiptunum

Viðskipti Orra Vigfússonar og Burðaráss með ríflega fimm prósenta hlut í Íslandsbanka voru undir núverandi gengi bankans. Viðskiptin voru gerð upp á grundvelli framvirks samnings frá því í febrúar. Það þýðir að yfir tímabilið bar Burðarás gengisáhættuna af bréfunum en ekki Orri eins og ætla mátti. Þetta kemur fram í nýrri tilkynningu sem send var Kauphöllinni eftir að gerð hafði verið athugasemd við skort á upplýsingum. Helgi Magnússon er einnig með samning um hátt í átta prósenta hlut í Íslandsbanka við Landsbankann þar sem Landsbankinn ber gengisáhættu. "Það er niðurstaða okkar af viðræðum við aðila að upplýsingarnar séu viðunandi," segir Þórður Friðjónsson, forstjóri Kauphallar Íslands. "Það er hins vegar alveg ljóst að það eru atriði í kringum þennan samning sem markaðurinn skilur ekki og eru mjög óvenjulegar. Þeim hefur ekki tekist að koma því til skila til markaðarins að þetta sé byggt á fullkomlega eðlilegum viðskiptalegum forsendum. Það væri í þágu markaðarins ef aðilum málsins tækist að skýra þetta með nægjanlega skilmerkilegum hætti svo að markaðurinn skynji þessa viðskiptahætti sem eðlilega og heilbrigða."





Fleiri fréttir

Sjá meira


×