Viðskipti innlent

Efast um bolmagn bankanna

Hallur Magnússon hjá Íbúðalánasjóði telur hæpið að bankarnir geti staðið undir því að bjóða 4,4 prósent vexti nema þeir geri lægri ávöxtunarkröfu en eðlilegt sé. Hann hefur einkum efasemdir um getu Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis til að bjóða upp á lán á þessum kjörum. "Vonandi hafa þeir bolmagn en til lengri tíma, að gefnu því að raunvaxtastig lækki ekki, þá er ljóst að þessi útlán þeirra eru ekki að gefa þeim ásættanlega ávöxtun sem eigendur bankanna gera til sinnar fjárfestingar," segir Hallur. Hann telur að bankarnir dragi þá ályktun að vaxtastig muni lækka á næstunni og því geti vaxtastigið skilað bönkunum ásættanlegum ábata. Lækki vaxtastigið hins vegar ekki telur Hallur að bankarnir séu í raun að borga með nýju lánunum. Um það að bankarnir séu komnir í beina samkeppni við Íbúðalánasjóð segir Hallur að gert hafi verið ráð fyrir því þegar kerfisbreytingar voru ákveðnar. "Við gerðum ráð fyrir svona ástandi. Reyndar ekki svona fljótt eða svona lágt. Við töldum ekki að menn hefðu bolmagn til að fara í 4,4 enda hafa þeir það ekki til lengri tíma litið," segir Hallur. Hann nefnir sérstaklega Sparisjóð Reykjavíkur og nágrennis í þessu samhengi, en SPRON hefur boðið 4,4 prósent vexti. "Hvernig á Sparisjóðurinn að geta boðið 4,4 prósent vexti ef langtímavextir lækka ekki á næstu örfáu mánuðum. Þeir geta ekkert fjármagnað þetta," segir Hallur. Guðmundur Hauksson, sparisjóðsstjóri hjá Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis, er undrandi á ummælum Halls. "Ég veit ekki hvað honum gengur til með slíkum ummælum. Við teljum okkur standa fullkomlega vel í þessu. Við skulum bara horfa til þess að sparisjóðirnir hafa veitt húsnæðislán á Íslandi í áratugi og það hafa ýmsar aðstæður verið á markaði," segir hann. Hann segir að sparisjóðirnir hafi alltaf fundið farveg í þeirri þróun og að það sé ekkert sem bendi til þess að þeir geti ekki tekið þátt í því sem sé að gerast núna.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×