Lífið

Sipa - ný verslun í miðborginni

Margir hafa eflaust tekið eftir því að hin rótgróna Hattabúð Reykjavíkur að Laugavegi 2, þar sem Skólavörðustígur mætir Laugavegi, er ekki lengur á sínum stað. Í staðinn er þar komin ný verslun, verslunin Sipa. Verslunin er frekar ný af nálinni en hún opnaði í lok nóvember á síðasta ári. Í Sipa eru eingöngu seldar danskar vörur sem helst eru ætlaðar til heimilisins. Einnig er þar hægt að finna fallegar gjafavörur. "Reksturinn fór frekar hægt af stað þar sem fólk áttaði sig ekki almennilega á því að hattabúðin væri hætt. Núna er þetta allt að komast í gang og framtíðin er björt," segir Pálína Pálsdóttir, eigandi Sipa. "Við seljum gjafavörur og hluti til heimilisins. Við erum til dæmis með rúmföt, náttföt og púða jafnt fyrir unga sem aldna. Við erum með tvö dönsk merki; Rice og Green Gate. Rise höfðar frekar til unga fólksins sem vill mikið vera að breyta til. Rice fylgir tískubylgjum í heimilisvörum vel eftir og er í ódýrari kantinum. Green Gate vörurnar eru aðeins dýrari en mjög eigulegar. Ég myndi segja að vörurnar sem við seljum séu fyrir konur. Þær gleðja augað og eru afskaplega vandaðar," segir Pálína. Pálína hyggur á að bæta við sig í versluninni og er nýkomin af sýningu í Danmörku þar sem hún skoðaði og pantaði nýjar vörur. "Ég fæ nýjar vörur reglulega en nú var ég að panta heilan helling í viðbót. Þær vörur koma líklega ekki fyrr en seinna í haust. Þá mun ég reyna að brjóta upp vöruúrvalið með fallegum, litlum boxum og pipar og salti svo eitthvað sé nefnt."





Fleiri fréttir

Sjá meira


×