Viðskipti innlent

Kaupir Landsbankinn Íslandsbanka?

Grunur um að Landsbankamenn hafi áhuga á að kaupa Íslandsbanka þykir hafa styrkst eftir viðskipti morgunsins. Fjárfestingarfélagið Burðarás er nú fimmti stærsti hluthafi Íslandsbanka með fimm og hálfs prósents hlut. Burðarás hafði selt Orra Vigfússyni þennan hlut í byrjun árs og setti Orri hlutaféð í eignarhaldsfélagið Urriða. Friðrik Jóhannsson, forstjóri Burðaráss, sagði í samtali við fréttastofu að Orri hafi ætlað að fá erlenda aðila til liðs við sig en það ekki gengið. Því hafi orðið úr að kaupin gengu til baka með þeim hætti að Burðarás hefur yfirtekið Urriða. Friðrik segir enga ákvörðun hafa verið tekna um frekari kaup á hlutabréfum í Íslandsbanka. Ekki hafi heldur verið tekin ákvörðun um hvort þeir muni selja það sem þeir nú eiga. Ýmsar kenningar hafa verið á lofti um fyrirætlanir Landsbankamanna þegar kemur að Íslandsbanka. Efasemdarmenn höfðu reyndar aldrei trú á því að Orri Vigfússon gæti einn og óstuddur staðið undir kaupunum á sínum tíma, og þá ekki heldur Helgi Magnússon sem á 8,3 prósent í bankanum. Hlutur hans er skráður á Landsbankann sem fjármagnaði kaupin. Landsbankinn getur ekki annað en talist hafa sterk tök á hlutabréfum Helga. Sterk eignatengsl eru svo aftur á milli Landsbankans og Burðaráss.  





Fleiri fréttir

Sjá meira


×