Viðskipti innlent

Sameinað færeysku óskabarni

Skipafélag Færeyja hefur verið sameinað Eimskipafélagi Íslands. Eimskipafélagið greiddi eigendum færeyska félagsins 100 milljón danskar krónur, rúmlega milljarð íslenskra króna. Eigendur Skipafélags Færeyja eignast auk þess tæplega sex prósenta hlut í Eimskipafélaginu á móti Burðarási, sem á rúm 94 prósent í félaginu. Baldur Guðnason, forstjóri Eimskipafélagsins, segir færeyska félagið eiga sér langa sögu og sérstakan stað í hjörtum Færeyinga. Þeirra óskabarn. "Þeir eru eins og Eimskip á Íslandi. Eitt af þeirra elstu fyrirtækjum, með 85 ára sögu." Baldur segir áherslu því lagða á að færeyska félagið haldi áfram að sigla undir eigin merkjum. "Stefnan er að Skipafélag Færeyja taki yfir starfsemi Eimskips í Færeyjum." Baldur kynnti metnaðarfullar arðsemisáætlanir á fundi með fjárfestum í kjölfar hálfsársuppgjörs. Baldur segir kaupin lið í áætlun félagsins um aukna arðsemi og eflingu starfsemi á Norður-Atlantshafi. "Við sjáum töluverða samlegð af rekstri þessara félaga." Hann samþykkir að kaupin séu táknræn fyrir Eimskipafélagið, sem eftir viðskiptin er ekki lengur í 100 prósent eigu Burðaráss.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×