Viðskipti innlent

Hagnaðist um 2,5 milljónir evra

Hagnaður Marels á öðrum ársfjórðungi nam 2,53 milljónum evra að því er greiningardeild KB banka greinir frá og er það töluvert yfir væntingum bankans. Hann gerði ráð fyrir 1,88 milljóna evra hagnaði á fjórðungnum sem er 34,6% undir réttri tölu. Til samanburðar var hagnaðurinn 1,735 milljónir evra á öðrum ársfjórðungi í fyrra og því um að ræða 45,8% aukningu hagnaðar milli ára. Samanlagt nemur hagnaður félagsins 3,818 milljónum evra á fyrri hluta ársins samanborið við 2,4 milljónir á fyrri helmingi ársins í fyrra. Aukning hagnaðar nemur því 59% milli ára. Hagnaður félagsins árið 2003 nam 3,749 milljónum evra og því er afkoman það sem af er árinu orðin meiri en allt árið í fyrra. Tekjur Marel á öðrum ársfjórðungi voru nokkuð undir væntingum eða 31,45 milljónir evra samanborið við 35,17 milljóna spá KB banka. Um er að ræða 1,6% samdrátt tekna frá öðrum ársfjórðungi í fyrra. Það sem skýrir hins vegar góða afkomu félagsins, miðað við væntingar bankans, er veruleg hækkun á framlegð félagsins. EBITDA-framlegð á fjórðungnum var 14,5% samanborið við 11,3% á sama tíma í fyrra. Líkt og á fyrsta ársfjórðungi skýrist hækkun á framlegð af aukinni stöðlun vara, auknu hagræði í innkaupum ásamt öðrum skipulagsbreytingum að sögn KB banka. Hlutabréf Marel hækkuðu um 7,7% í 22 milljóna króna viðskiptum í Kauphöllinni í dag en uppgjörið birtist rétt fyrir lokum markaða. Myndin er af Herði Arnarsyni, forstjóra Marels.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×