Viðskipti innlent

Gengi krónunnar lækkar

Gengi krónunnar hefur lækkað um hálft prósent frá upphafi mánaðarins að því er Íslandsbanki greinir frá. Mest af lækkuninni átti sér stað í gær en þá lækkaði gengið um 0,3%. Lækkunin kemur í kjölfar hækkunarhrinu sem stóð nær sleitulaust allan síðastliðinn mánuð eða frá því að Seðlabankinn hækkaði stýrivexti sína í upphafi mánaðarins. Í ágúst hækkaði gengi krónunnar um tæplega 2,5% og hefur lækkunin í þessum mánuði ekki tekið nema fimmtung af henni til baka. Rekja má þrjá af fjórum síðustu viðsnúningspunktum í krónunni til breytinga Seðlabankans á stýrivöxtum sínum samkvæmt Íslandsbanka. Fyrsta vaxtahækkun bankans á árinu kom af stað hækkunarhrinu í gengi krónunnar sem stóð nær allan maímánuð. Afar hófleg hækkun bankans á vöxtum sínum í byrjun júlí sneri þróuninni við og krónan lækkaði um ríflega 1,5% á tæpum mánuði. Síðan snerist þróunin við þegar bankinn hækkaði vexti sína umfram það sem spáð var samhliða útgáfu Peningamála í byrjun júlí. Viðsnúningur sá sem átti sér stað í upphafi þessa mánaðar sker sig því úr hvað þetta varðar.  Íslandsbanki telur ólíklegt að þessi lækkunarhrina endist lengi eða fari með gengi krónunnar langt. Greiðslur vegna hlutafjárútboðs KB-banka muni eflaust halda aftur af lækkuninni á næstunni og síðan er stutt í næstu vaxtahækkun Seðlabankans.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×