Viðskipti innlent

Hlutabréf hækkuðu töluvert

Hlutabréf hækkuðu töluvert í Kauphöll Íslands í dag. Úrvalsvísitalan hækkaði um 1,21% og er nú 3.037 stig. Mest viðskipti voru með hlutabréf Actavis sem hækkuðu um 2,2%. Hugsanlegt er að hlutabréf Actavis hafi hækkað vegna tilkynningar sem Makedóníska lyfjafyrirtækið Alkaloid AD sendi Kauphöllinni þar í landi þann 1. júní sl. að sögn KB banka. Í tilkynningunni segir að félagið eigi í viðræðum við Actavis Group um hugsanlegt samstarf og á erlendum fréttamiðlum segir að hugsanlegt sé að Actavis kaupi Alkaloid. KB banki segir ólíklegt er að þessi frétt eigi við rök að styðjast enda hefur Actavis ekki sent frá sér tilkynningu um möguleg kaup á Alkaloid hér á landi. Þess má þó geta að kaup á Alkaloid hefðu ekki veruleg áhrif á verðmæti Actavis enda félagið lítið og að stórum hluta til í óarðbærri starfsemi. Þetta er því augljóslega ekki sú yfirtaka sem nýlegur orðrómur í The Times virtist ýja að, að sögn KB banka. Viðskipti með hlutabréf Íslandsbanka námu 301 milljón kr. í dag sem og hækkuðu þau um 1,2%. 234 milljón kr. viðskipti voru með bréf Bakkavarar (0,7% hækkun), 205 milljón kr. viðskipti voru með hlutabréf Landsbankans (3,6% hækkun), 175 milljónir kr. skiptu um hendur í formi bréfa í Össuri (2,2% hækkun) og 170 milljón kr. viðskipti voru í Burðarási (4% hækkun). Mest hækkuðu hlutabréf VÍS í dag eða um 5,6%. Viðskipti voru með hlutabréf allra félaganna í Úrvalsvísitölunni í dag - utan Medcare Flögu - og hækkuðu þau öll fyrir utan Atorku.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×