Viðskipti innlent

Úrbóta vant á öllum sviðum

Framkvæmd viðbótarlána er almennt sögð hafa gengið vel frá því lög um þau tóku gildi fyrir fimm árum, en þó er komið með tillögur til úrbóta á nánast öllum þáttum lánanna í áliti nefndar sem félagsmálaráðherra skipaði í febrúar 2003. Viðbótarlánin eru sögð hafa þjónað mörgum fjölskyldum og einstaklingum, en mikill og ör vöxtur hafi verið í þróun slíkra lánveitinga. Lögð er til endurskoðun á framkvæmd greiðslumats sem sögð er gölluð, bæði vegna þess að viðmiðunartölur vegna framfærslu séu of lágar og að lánastofnanir sem annist framkvæmdina beri enga ábyrgð á matinu. Þá er lögð til endurskoðun á ábyrgðarkerfi viðbótarlánanna, kallað eftir aukinni samantekt upplýsinga varðandi mikilvæga þætti til grundvallar greiningu á markmiðum lánanna. Þá er talið að þau tekjumörk sem miðað er við við lánveitinguna séu of rúm. Að mati nefndarinnar þarf einnig að samræma reglur sveitarfélaga um lánveitinguna. Nefndinni var falið að meta framkvæmd og lagaumhverfi viðbótarlána, auk þess að skila niðurstöðum um úrbætur, en hún miðaði umfjöllun sína við núverandi fyrirkomulag án tillits til áætlana félagsmálaráðuneytisins um almenna hækkun lánshlutfalls, þ.e. svokölluð 90% lán.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×