Viðskipti innlent

Lækkun virðisaukaskatts í forgang

Einar Oddur Kristjánsson, varaformaður fjárlaganefndar, telur rétt að lækka virðisaukaskatt í kjölfar aukinnar verðbólgu. "Við lýstum því yfir í stjórnarsáttmálanum að við ætlum að lækka skatta um 20 milljarða á kjörtímabilinu," segir Einar Oddur.  "Þessi verðbólguvá sem núna er komin upp segir mér að við eigum að einbeita okkur að því að lækka virðisaukaskattinn eins mikið og við getum." Að sögn Einars Odds þurfa stjórnvöld að koma til móts við aðila vinnumarkaðarins. "Við þurfum að gera allt sem í okkar valdi stendur til þess að kjarasamningar geti haldið." "Lækkun virðisaukaskatts kemur til með að lækka vöruverð og gæti þar af leiðandi unnið gegn verðbólgunni," segir Pétur Blöndal, formaður efnahags- og viðskiptanefndar, þegar hugmyndir Einars Odds eru bornar undir hann. "Mér finnst vel koma til greina að skoða þann flöt í ljósi aðstæðna. Hins vegar megum við ekki gleyma meginmarkmiði okkar, sem er lækkun tekjuskatts." Pétur telur hins vegar ekki rétt að einblína einungis á ríkisfjármálin vegna verðbólgunnar. "Þetta er líka spurning um sparnaðarhegðun landsmanna, sem ég tel ekki síður mikilvæga."





Fleiri fréttir

Sjá meira


×