Ísland endaði með 430 stig, þremur stigum meira en Serbía, sem leiddi eftir fyrsta daginn. Íslenska liðið tryggði sér sigurinn í lokagreininni í kvöld.
Þetta var tveggja hesta kapphlaup því Bosnía og Hersegóvína var einungis með 385 stig í þriðja sætinu. Frábær árangur Íslands sem er því komið upp um deild.
Benjamín Jóhann Johnsen náði þriðja sætinu í stangarstökki karla á sínum besta stökki og Vigdís Jónsdóttir náði einnig í brons í sleggjukasti kvenna.
María Rún Gunnlaugsdóttir lenti í 2. sæti í 100 metra grindarhlaupi kvenna er hún kom í mark á sínum besta tíma, 14,21. Erna Sóley Gunnarsdóttir fékk brons í kúluvarpi.
Dagbjartur Daði Jónsson kastaði þriðja lengst í spjótkasti karla en María Rún vann einnig til verðlauna í hástökki kvenna. Hún hoppaði 1,75 sem var hennar besti árangur og það tryggði henni brons.
Aníta Hinriksdóttir lenti í 2. sæti í 1500 metra hlaupi kvenna en hún kom í mark fjórum sekúndum á eftir Teodora Simovic frá Króatíu. Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir vann gull í 200 metra hlaupi kvenna.
Kolbeinn Höður Gunnarsson fékk silfur í 200 metra hlaupi karla og Birna Kristín Kristjánsdóttir brons í hástökki kvenna. Hlynur Andrésson var annar í 3000 metra hlaupi.