Veður

Má búast við skúrum eða éljum

Eiður Þór Árnason skrifar
Skarfar á skeri við Sundahöfn.
Skarfar á skeri við Sundahöfn. Vísir/Vilhelm

Í dag er útlit fyrir fremur hæga austlæga eða breytilega vindátt og þrjá til átta metra á sekúndu. Bjart með köflum en sums staðar má búast við skúrum eða éljum á sveimi við ströndina.

Frost víða núll til fimm stig en í kringum frostmark sunnanlands. Hlýnar heldur þar á morgun.

Spá gerir ráð fyrir því að það bæti aðeins í vind á morgun og algengast að vindur verði austlægur á bilinu fimm til tíu metrar á sekúndu en tíu til fimmtán metrar á sekúndu með suðurströndinni, sem telst þá vera strekkingur. Bjart veður að mestu vestan- og norðanlands en dálitill skúrir suðaustantil.

Þetta kemur fram í spá Veðurstofu Íslands en hitanum verður nokkuð misskipt.

„Þar sem vindur er nógu ákveðinn til að blanda loftinu í neðstu lögum, er hiti yfirleitt ofan frostmarks og einnig þar sem andar af hafi. Þar sem vindur er hægur og lítið af skýjum, kólnar loftið næst jörðu niður fyrir frostmark vegna útgeislunar.

Ef rýnt er í veðurkort lengra fram í tímann, virðumst við eiga að vera áfram í meinlausri austlægri átt fram eftir næstu viku.“

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á mánudag og þriðjudag:

Austlæg eða breytileg átt 3-10. Dálítil rigning eða snjókoma suðaustanlands og á Austfjörðum, en víða bjart í öðrum landshlutum. Frost 1 til 6 stig, en hiti að 5 stigum með suður- og austurströndinni.

Á miðvikudag og fimmtudag:

Fremur hæg austlæg átt, en 10-15 m/s suðaustantil. Rigning eða snjókoma suðaustantil, en yfirleitt þurrt og bjart vestanlands. Frost víða 0 til 5 stig en frostlaust suðaustantil.

Á föstudag:

Norðaustlæg átt, 8-15, hvassast suðaustantil. Él austanlands, en léttskýjað um landið vestanvert. Kólnar í veðri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×