Fótbolti

Vildi ekki peninginn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pape Thiaw sést hér á hliðarlínunni í Afríkukeppninni á dögunum.
Pape Thiaw sést hér á hliðarlínunni í Afríkukeppninni á dögunum. Getty/Ulrik Pedersen

Aganefnd Afríska knattspyrnusambandsins (CAF) hefur ákveðið að refsa bæði Senegal og Marokkó eftir alla dramatíkina í úrslitaleik Afríkukeppninnar á dögunum.

Aganefnd CAF hefur dæmt Pape Thiaw, landsliðsþjálfara Senegal, í fimm leikja bann í leikjum á vegum CAF og sektað hann um hundrað þúsund Bandaríkjadali fyrir óíþróttamannslega framkomu í leiknum 18. janúar á þessu ári. Upphæðin jafngildir tæplega tólf milljónum íslenskra króna.

Senegalska þjóðin hóf strax hópfjármögnun til að hjálpa til við að greiða þessa hundrað þúsund dollara sekt Pape Thiaw en hann hefur afþakkað stuðninginn og hvetur fólk þess í stað til að gefa til annarra málefna:

„Samstaða ykkar hefur snert mig djúpt“

„Senegalska þjóð, fjölskylda mín, samstaða ykkar hefur snert mig djúpt. Takk fyrir kærleikann sem þið sýnið mér á hverjum degi. Hins vegar bið ég ykkur auðmjúklega að skipuleggja ekki fjáröflun í mínu nafni. Ég hvet ykkur til að beina þessum fjármunum í brýnni málefni, til hagsbóta fyrir þá sem raunverulega þurfa á þeim að halda,“ sagði Pape Thiaw.

Leikmennirnir Iliman Ndiaye og Ismaïla Sarr hafa einnig verið dæmdir í tveggja leikja bann hvor fyrir óíþróttamannslega framkomu gagnvart dómaranum.

Senegalska knattspyrnusambandið (FSF) fær 615.000 dala sekt, sem skiptist í 300.000 dali fyrir óábyrga hegðun stuðningsmanna og 300.000 dali fyrir óíþróttamannslega framkomu leikmanna og þjálfarateymis, auk 15.000 dala fyrir að fimm leikmenn fengu gul spjöld.

615 þúsund dala sekt jafngildir tæpum 75 milljónum íslenskra króna.

Tveir leikmenn í bann

Að auki er marokkóski leikmaðurinn Achraf Hakimi dæmdur í tveggja leikja bann. Liðsfélagi hans, Ismaël Saibari, er dæmdur í þriggja leikja bann.

Marokkóska knattspyrnusambandið fær einnig sektir fyrir hegðun boltastrákanna, að sögn CAF.

Daginn eftir hneykslisleikinn tilkynnti CAF að hann myndi hafa afleiðingar.

Fordæma alla óviðeigandi hegðun

„CAF fordæmir harðlega alla óviðeigandi hegðun sem á sér stað í leikjum, sérstaklega þá sem beinist að dómurum eða skipuleggjendum leiksins,“ skrifaði knattspyrnusambandið í yfirlýsingu.

Gianni Infantino, forseti FIFA, fordæmdi atburðina.

„Það er óásættanlegt að yfirgefa völlinn á þennan hátt,“ sagði Infantino.

Senegal er á leið á HM í fótbolta og fyrsti leikurinn er á móti Frakklandi 16. júní en sex dögum síðar spilar Senegal við Noreg. Lokaleikurinn er síðan á móti þjóðinni sem kemur í gegnum umspil FIFA sem er annaðhvort Írak, Bólóvía eða Súrinam.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×