Erlent

Morðið á Pretti gagn­rýnt úr ó­lík­legustu áttum

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Efnt var til mótmæla í Minneapolis og fleiri borgum Bandaríkjanna í gær.
Efnt var til mótmæla í Minneapolis og fleiri borgum Bandaríkjanna í gær. Getty/Stephen Maturen

Gríðarleg reiði hefur gripið um sig í Minnesota og víðar í Bandaríkjunum í kjölfar þess að hjúkrunafræðingurinn Alex Pretti, 37 ára, var skotinn til bana af fulltrúum innflytjendayfirvalda í Bandaríkjunum á laugardag.

Efnt var til mótmæla í Minneapolis og öðrum borgum landsins í gær og þá hefur fjöldi þekktra einstaklinga og samtaka fordæmt atvikið. Bæði Barack Obama og Bill Clinton, fyrrverandi Bandaríkjaforsetar, sendu frá sér yfirlýsingar. „Á lífsleiðinni stöndum við frammi fyrir aðeins örfáum augnablikum þar sem ákvarðanirnar sem við tökum og þær aðgerðir sem við grípum til munu móta sögu okkar um árabil. Þetta er eitt af þeim. Ef við gefum frá okkur frelsið eftir 250 ár, fáum við það mögulega aldrei aftur,“ sagði Clinton meðal annars.

Stjórnvöld hafa haldið áfram að fullyrða að Pretti hafi sjálfur átt sök á því hvernig fór og bent á að hann hafi haft skotvopn meðferðis þegar hann mætti á vettvang, þar sem mótmælendur voru að vekja athygli íbúa í nágrenninu að fulltrúar innflytjendayfirvalda væru mættir á staðinn.

Greining á myndskeiðum hefur hins vegar leitt í ljós að Pretti hafði verið afvopnaður þegar hann var skotinn, allt að tíu sinnum, þar sem hann lá í jörðinni með fjóra eða fimm menn ofan á sér. Fullyrðingar yfirvalda þess efnis að Pretti hafi gerst sekur um lögbrot með því að bera skotvopnið hafa verið harðlega gagnrýndar af samtökum skotvopnaeigenda, meðal annars National Rifle Association, sem hafa verið hliðholl Donald Trump Bandaríkjaforseta. Samtökin segja Pretti hafa verið í fullkomnum rétti með því að bera skotvopn, þar sem hann hafði til þess leyfi og hafa kallað eftir rannsókn málsins.

Hvað rannsóknina varðar virðist sagan vera að endurtaka sig en líkt og þegar Renée Good, 37 ára bandarískur ríkisborgari, var skotinn til bana í Minneapolis 7. janúar síðastliðinn, þá hafa alríkisyfirvöld hamlað rannsókn staðaryfirvalda, þrátt fyrir að þau hafi tryggt sér aðgengi með dómsúrskurði.

Fjölskylda Pretti hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem hún lýsir bæði sorg og reiði. Pretti hefur verið lýst sem friðelskandi manni, sem hafði ekkert annað á samviskunni en nokkrar umferðarsektir. „Gerið það komið sannleikanum um son okkar á framfæri,“ segir í yfirlýsingu fjölskyldunnar. „Hann var góður maður.“

Trump hefur brugðist við harmleiknum með löngum færslum á Truth Social þar sem hann hælir sjálfum sér og fordæmir Demókrata og ólöglega innflytjendur.


Tengdar fréttir

Skotinn til bana: Myndefnið þvert á orð ráðherrans

Alex Jeffrey Pretti, 37 ára gamall hjúkrunarfræðingur og bandarískur ríkisborgari, var skotinn til bana af fulltrúum Innflytjenda- og tolleftirlits Bandaríkjanna, ICE, í Minneapolis í gær. Heimvarnarráðherra Bandaríkjanna hélt því fram að Pretti hefði ráðist á fulltrúana, þvert á það sem má sjá á myndefni af vettvangi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×