Innlent

Fyrr­verandi yngsti þing­maður sögunnar skiptir um flokk og fer fram

Jón Þór Stefánsson skrifar
Bjarni Halldór fer úr Viðreisn yfir í Samfylkinguna.
Bjarni Halldór fer úr Viðreisn yfir í Samfylkinguna.

Bjarni Halldór Janusson, fyrrverandi varaþingmaður Viðreisnar og aðstoðarmaður Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, ætlar í framboð með Samfylkingunni í Reykjanesbæ.

Þetta staðfestir hann í samtali við fréttastofu. Hann segist ekki geta sagt til um hvar hann verði á lista Samfylkingarinnar, en það verður tilkynnt komandi þriðjudag.

Bjarni Halldór hefur tekið þátt í starfi Viðreisnar frá árinu 2014 og var meðal stofnenda flokksins og fyrsti forseti ungliðahreyfingarinnar.

Hann segist kveðja Viðreisn í góðu.

„Ég hef ekkert nema gott að segja um minn tíma þar,“ segir hann.

„Mér bauðst þetta tækifæri og ætla að stökkva á vagninn, en skil við mitt fólk í góðu. Ég hef alltaf verið mitt á milli Samfylkingarinnar og Viðreisnar í skoðun, þannig þetta er ekkert fjarlægt mér.“

Líkt og áður segir aðstoðaði Bjarni núverandi utanríkisráðherra. Þá var hann varaþingmaður Viðreisnar. Hann rataði í fréttirnar árið 2017, en þá tók hann sæti á Alþingi, yngstur allra í sögunni, 21 árs og 142 daga gamall.

Met Bjarna var fyrst toppað ári síðar þegar Karl Liljendal Hólmgeirsson, sem var tuttugu ára og 355 daga, tók sæti.

Nú á Gunnhildur Fríða Hallgrímsdóttir metið. Hún tók sæti á Alþingi, nítján ára og 241 daga gömul árið 2021.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×