Handbolti

„Þurfum við ekki að fá fleiri varða bolta?“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Viktor Gísli náði sér ekki á strik gegn Króötum í dag. Ekki frekar en aðrir í íslensku vörninni í fyrri hálfleik.
Viktor Gísli náði sér ekki á strik gegn Króötum í dag. Ekki frekar en aðrir í íslensku vörninni í fyrri hálfleik. Vísir/Vilhelm

„Þetta er alveg mjög vont,“ sagði landsliðsmarkvörðurinn Viktor Gísli Hallgrímsson eftir súrt eins marks tap gegn Króötum á EM í handbolta í dag.

Með sigri hefði íslenska liðið komið sér í kjörstöðu fyrir framhaldið í milliriðlinum, en tapið þýðir að brekkan er orðin brattari. Hún er þó langt frá því að vera óklífandi.

„Þetta var bara ógeðslega lélegur fyrri hálfleikur fannst mér hjá bara öllum. Sóknin var flott, en að fá 19 mörk á okkur. Það bara má ekki gerast. Það er bæði mér að kenna og vörninni.“

En hvað fannst Viktori Gísla vera að klikka milli varnar og markvörslu hjá íslenska liðinu í dag?

„Það er erfitt að segja núna. Það er erfitt að sjá það beint eftir leik. Maður þarf að kíkja á vídjóið og finna hvað við hefðum getað gert betur.“

„Mér fannst kannski eins og ég heyrði Gísla segja og við töluðum um í hálfleik þá vorum við bara frekar soft. Þessi Srna gæi var að hlaupa yfir hálfan völlinn og einhvernveginn ennþá að taka skotið með tvo menn í sér og það er það sem hann gerir best og við vorum ekki að ná að stoppa það. Við vorum svolítið að leyfa þeim að komast í sína bestu hluti í fyrri hálfleik. Mér fannst við gera betur í seinni, en þurfum við ekki bara að fá fleiri varða bolta? Er það ekki þannig?“

Þrátt fyrir tapið þýðir þó ekkert annað en að horfa fram á veginn og Viktor er sammála því að nú þurfi íslenska liðið að rísa aftur upp.

„Klárlega. Við þurfum bara að búa til stemningu hverja einustu sekúndu og hverja einustu helvítis mínútu. Við erum ekki betri en það. Við þurfum bara að búa til stemningu í vörn og fá áhorfendur með okkur. Og vinna höllina með okkur. Við náðum ekki að gera það í fyrri hálfleik og það var dýrt,“ sagði Viktor að lokum.

Klippa: Viktor Gísli eftir tapið gegn Króötum



Fleiri fréttir

Sjá meira


×