Innlent

Samfylkingarmönnum í Reykja­vík fjölgað um 72 prósent

Árni Sæberg skrifar
Pétur Marteinsson tekur oddvitaslag á móti Heiðu B. Hilmisdóttur borgarstjóra.
Pétur Marteinsson tekur oddvitaslag á móti Heiðu B. Hilmisdóttur borgarstjóra. Vísir

Frá því að ungliðahreyfing Samfylkingarinnar í Reykjavík hóf formlegan undirbúning fyrir prófkjör flokksins á morgun, um miðjan nóvember síðastliðinn, hefur skráðum félögum flokksins í Reykjavík fjölgað um 72 prósent.  

Þetta segir Þórhallur Valur Benónýsson, formaður kjörstjórnar fulltrúaráðs Samfylkingarinnar í Reykjavík, í samtali við Vísi. Um miðjan nóvember hafi félagarnir verið 4038 en á miðnætti í gær hafi þeir verið orðnir 6935. Það er fjölgun upp á 2879, eða 71,7 prósent, á um tveimur mánuðum.

Æsispennandi oddvitaslagur

Til þess að njóta atkvæðisréttar í prófkjörinu á morgun þurfti að vera meðlimur Samfylkingarinnar í Reykjavík fyrir miðnætti í gær. Prófkjörið fer svo fram á morgun, þar sem búast má við æsispennandi slag um oddvitasætið milli þeirra Heiðu Bjargar Hilmisdóttur borgarstjóra og Péturs Marteinssonar. Þau mætast í Pallborðinu hér á Vísi klukkan 13.

Þórhallur Valur segist búast við því að einhverjir muni þó bætast á kjörskrána fram að prófkjöri þar sem alltaf þurfi að greiða úr einhverjum kærumálum. Til að mynda fólks sem taldi sig vera á kjörskrá eða námsmanna erlendis.

Líklega lengsta kjörskrá sögunnar

Samfylkingin haldi tvenns konar prófkjör, annars vegar þar sem aðeins skráðir félagar hafa atkvæðisrétta og hins vegar þar sem það nægir að vera yfirlýstur stuðningsmaður flokksins. Áðurnefnda fyrirkomulagið gildir í þetta skiptið en í síðasta prófkjöri hafi hið síðarnefnda gilt. Þrátt fyrir það eru fleiri á kjörskrá nú en þá.

Þórhallur Valur segir það benda til þess að um lengstu kjörskrá í sögu prófkjara Samfylkingar í borginni.

Þá segir hann að einhverjir hnökrar hafi orðið á rafrænu skráningarkerfi flokksins í gær vegna þess mikla fjölda fólks sem reyndi að skrá sig. Einhverjir hafi ekki náð að skrá sig í tæka tíð en kjörstjórnin hafi ákveðið að gefa þeim sem sendu tölvubréf þess efnis fyrir miðnætti aukið svigrúm.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×