Innlent

Willum fer ekki fram og styður Lilju

Eiður Þór Árnason skrifar
Willum Þór Þórsson, fyrrverandi þingmaður Framsóknar, þakkar fyrir áskoranirnar en segir þetta ekki rétta tímann.
Willum Þór Þórsson, fyrrverandi þingmaður Framsóknar, þakkar fyrir áskoranirnar en segir þetta ekki rétta tímann. Vísir/Vilhelm

Willum Þór Þórsson, fyrrverandi heilbrigðisráðherra og núverandi forseti Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands (ÍSÍ), ætlar ekki að gefa kost á sér í formannssæti Framsóknarflokksins. Þess í stað styður hann Lilju Dögg Alfreðsdóttur varaformann.

Lilja og Ingibjörg Isaksen, þingflokksformaður flokksins, hyggjast báðar gefa kost á sér á komandi flokksþingi Framsóknar í febrúar. Vilja þær taka við af Sigurði Inga Jóhannssyni, sitjandi formanni, sem sækist ekki eftir endurkjöri.

„Íþróttahreyfingin hefur í gegnum tíðina spilað stórt hlutverk í mínu lífi. Mér var sýndur sá heiður og traust, á síðasta ári, að vera kjörinn forseti ÍSÍ til næstu fjögurra ára,“ skrifar Willum í færslu á Facebook-síðu sinni

„Nú liggur það fyrir að Framsókn þarf að kjósa sér nýja forystu og hef ég fengið áskoranir um að bjóða mig fram til formennsku. Eftir töluverða umhugsun hef ég komist að þeirri niðurstöðu að einbeita mér að því að rísa undir því trausti sem ég hef verið kjörinn til og nú er því ekki rétti tímapunkturinn til þess að bjóða mig fram til forystu í Framsókn,“ bætir Willum við.

Hann segist þakklátur fyrir traustið. Nú þurfi Framsókn á sterkri forystu að halda. 

Fréttin hefur verið uppfærð með upplýsingum um framboð Lilju.


Tengdar fréttir

Lilja sækist eftir því að leiða Fram­sókn

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknarflokksins og fyrrverandi menningar- og viðskiptaráðherra, ætlar að gefa kost á sér í formannssæti flokksins. Þetta tilkynnti hún á félagsfundi Framsóknarfélags Reykjavíkur sem fram fór á Hilton Reykjavík Nordica í kvöld.

Ingibjörg býður sig fram í formanninn

Ingibjörg Isaksen, þingflokksformaður Framsóknarflokksins, gefur kost á sér til formanns Framsóknarflokksins á komandi flokksþingi Framsóknar í febrúar. Ingibjörg greinir frá framboði sínu á samfélagsmiðlum nú í morgun. Hún segir stöðu flokksins kalla á breytingar og að sjálf sé hún tilbúin til að bretta upp ermar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×