Innlent

Mesti fjöldi í sögu bráðamóttökunnar

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Bráðamóttakan í Fossvogi.
Bráðamóttakan í Fossvogi. Vísir/Vilhelm

Aldrei hafa jafn margir leitað á bráðamóttöku Landspítalans vegna hálkuslysa á einum degi líkt og á þriðjudag þegar níutíu slösuðust. Leggja þurfti fimm inn á sjúkrahúsið.

Mikið álag hefur verið á bráðamóttöku Landspítalans vegna gríðarlegrar hálku sem var á höfuðborgarsvæðinu í vikunni. Á þriðjudag var flughált á höfuðborgarsvæðinu og á hádegi höfðu á þriðja tug manna leitað á bráðamóttökuna vegna hálkuslysa.

Í tilkynningu frá spítalanum segir að alls hafi níutíu leitað á bráðamóttökuna og reyndust 35 þeirra vera með beinbrot eða liðhlaup. Tuttugu af þessum níutíu voru börn. Leggja þurfti fimm einstaklinga inn á Landspítala fyrir sérhæfðari meðferð.

„Eftir því sem næst verður komist er þetta mesti fjöldi sem hefur leitað á bráðamóttökuna á einum sólarhring vegna hálkuslysa í sögu deildarinnar,“ segir í tilkynningunni.

„Hálkan sem myndaðist þessa daga hefur valdið mörgum heilsutjóni og slíku fylgir umtalsverður kostnaður fyrir samfélagið. Mikilvægt er að efla hálkuvarnir þegar slíkar aðstæður skapast, auk þess sem eindregið er mælt með því að fólk noti mannbrodda í hálkunni og fari varlega.“

Á þriðjudag sagði Aaron Palomares, sérnámslæknir bráðdeildar, að hann og kollegar hans hefðu ekki upplifað dag líkt og þennan. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×