Innlent

Sósíal­istar sendu nær allar tekjur í fé­lög tengdum fyrri stjórn

Kjartan Kjartansson skrifar
Sósíalistar færðu sig yfir í húsnæði Menningartengsla Íslands og Rússlands (MÍR) á Hverfisgötu eftir að Vorstjarnan rak flokkinn úr fyrra húsnæði í Boltholti eftir átakaaðalfund í fyrra.
Sósíalistar færðu sig yfir í húsnæði Menningartengsla Íslands og Rússlands (MÍR) á Hverfisgötu eftir að Vorstjarnan rak flokkinn úr fyrra húsnæði í Boltholti eftir átakaaðalfund í fyrra. Sósíalistaflokkurinn

Tvö félög sem tengjast fyrrum stjórn Sósíalistaflokksins fékk yfir tuttugu milljónir króna frá flokknum árið 2024, bróðurskerfinn af tekjum hans það ár. Flokkurinn eyddi tæpum tíu milljónum króna í baráttuna fyrir alþingiskosningar.

Hatrammar deilur geisuðu hjá Sósíalistaflokksins í kringum aðalfund sem var haldinn í maí í fyrra. Í þeim var meðal annars deilt um réttmæti þess að undir þáverandi stjórn hefði flokkurinn veitt öllum styrkjum sem hann fékk til Samstöðvarinnar annars vegar og Vorstjörnunnar hins vegar, félags sem var sagt ætlað að styrkja baráttu í samfélagsmálum.

Gunnar Smári Egilsson, ábyrgðarmaður Samstöðvarinnar og þáverandi formaður framkvæmdastjórnar Sósíalistaflokksins, og fylking hans varð undir á aðalfundinum. Í kjölfarið úthýsti Vorstjarnan, sem laut stjórn bandamanna hans, flokknum úr húsnæði hans í Bolholti. Félagið hafði leigt flokknum húsnæðið og Samstöðinni sömuleiðis.

Framlögin skráð sem lán og rekstrarkostnaður

Framlag Sósíalistaflokksins til Samstöðvarinnar er skráð sem rúmlega 12,2 milljóna króna lán í ársreikningi flokksins fyrir árið 2024 sem Ríkisendurskoðun hefur staðfest. Lánið er sagt vaxtalaust og með breytirétti í hlutafé til Samstöðvarinnar.

Rúmlega 9,7 milljónir króna sem Sósíalistaflokkurinn færði Vorstjörnunni eru taldar fram undir rekstrarkostnaði við „kynningar, fræðslu- og baráttumál“. Til frekari skýringar segir að féð sé til reksturs baráttu, fræðslu- og kynningarmiðstöðvar.

Saman fengu Samstöðin og Vorstjarnan þannig tæpar 22 milljónir króna frá Sósíalistaflokknum árið 2024. Það er langstærsti hlutinn af þeim um 26,5 milljónum króna sem flokkurinn fékk í styrki frá ríkissjóði og sveitarfélögum það ár.

Árið 2023 lánaði flokkurinn Samstöðinni vaxtalaust um 15,5 milljónir króna og greiddi Vorstjörnunni tæpar 12,3 milljónir króna.

Engin framlög sem námu hámarki

Sósíalistar hlutu fjögur prósent atkvæða í alþingiskosningunum í nóvember 2024. Flokkurinn varði rétt tæpum tíu milljónum króna í kosningabaráttuna samkvæmt ársreikningnum.

Stærsti hluti kostnaðarins fólst í kaupum á auglýsinga- og kosningavörum, um 4,6 milljónir.

Langstærsti hluti tekna flokksins var 24,5 milljóna krónar styrkur úr ríkissjóði. Þar á eftir komu framlög frá einstaklingum upp á 6,1 milljón króna. Ekkert þeirra var yfir 300.000 krónum. Þá styrkti Reykjavíkurborg flokkinn um 1,9 milljónir króna en hann átti þá tvo borgarfulltrúa.

Aðeins fjórir lögaðilar styrktu Sósíalistaflokkinn árið 2024. Á meðal þeirra var útgáfufélag Vikublaðsins á Akureyri sem er að mestu leyti í eigu KEA. Stærsta einstaka framlagið var frá félaginu Stórveldinu í Vesturbænum efh. sam gaf flokknum hundrað þúsund krónur. Það er skráð á Sigurð Haraldsson.

Sanna Magdalena Mörtudóttir og Trausti Breiðfjörð Magnússon voru borgarfulltrúa Sósíalistaflokksins en voru hvort í sinni fylkingunni á aðalfundi í fyrra. Trausti hætti sem borgarfulltrúi og Sanna er ekki lengur borgarfulltrúi flokksins.Sósíalistaflokkurinn

Lögbundið hámarksframlag einstaklinga og lögaðila til stjórnmálaframboða er 550.000 krónur.

Átta milljóna króna afgangur var af rekstri Sósíalistaflokksins árið 2024. Eigið fé hans nam 27,5 milljónum króna en haldbært fé tæplega 840 þúsund krónum við lok ársins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×