Lífið

Vin­sældir þessarar siðspilltu moldvörpu eru þér að kenna

Sif Sigmarsdóttir skrifar
Sif Sigmarsdóttir er með vikulega pistla á Vísi.
Sif Sigmarsdóttir er með vikulega pistla á Vísi. Vísir/Sara Rut

Ég sat skömmustuleg við eldhúsborðið og skrollaði á Facebook yfir afgöngum af jólakonfekti – þar fór súkkulaði- og samfélagsmiðlabindindi janúarmánaðar fyrir bí – þegar mér svelgdist skyndilega á.

„Hei,“ hrópaði ég. Eiginmaðurinn kom hlaupandi.

Ég þóttist greina fordæmingu í andlit hans. Hann hafði þó engan rétt til að dæma mig. Hélt hann að ég vissi ekki að hann laumaðist sjálfur á Twitter á klósettinu þrátt fyrir sameiginlegt áramótaheit?

„Veistu hvað Stefán Einar var að segja í Þjóðmálum?“ spurði ég.

Eiginmaðurinn dró símann upp úr vasanum eins og Lukku Láki skammbyssu úr slíðri.

Hann opnaði símann með andlitinu.

ÞÚ TRÚIR EKKI HVAÐ GERÐIST NÆST!

Í villu og svíma

Ummæli viðskiptasiðfræðingsins og fjölmiðlamannsins Stefáns Einars Stefánssonar um rithöfundinn og matgæðinginn Nönnu Rögnvaldardóttur í hlaðvarpinu Þjóðmál ollu uppnámi á Facebook í síðustu viku.

Þjóðmálum er ekkert óviðkomandi.

Kvað Stefán Einar Nönnu farna að líkjast færeysku skerpukjöti, sem hlyti að skýrast af því að hún væri komin á Ozempic.

„Hver vill borða mat frá svona konu? Mynduð þið kaupa matreiðslubækur frá henni?“ spurði Stefán Einar þáttargesti, þar sem hann sat í myndveri með sólgleraugu og rauðvínsglas. „Ég bara missi matarlystina við tilhugsunina.“

Stefán Einar var í kjölfarið úthrópaður „hálfviti“, „skítseiði“, „ógeð“, „ómerkingur“, „kúkur“, „skítaköggull“, „skíthæll“ og „siðspilltur dóni“ svo fátt eitt sé nefnt.

Þeir sem töldu hneykslun sína framlag í baráttu gegn hinum meinta „óþverra“, „mannleysu“, „helvítis skoffíni“, „ömurlegri Moggadruslu“ og „sífullum kókhaus“ óðu hins vegar í villu og svíma.

Ekki lengur brandari

Síðastliðinn þriðjudag var ár liðið frá því að Donald Trump tók við embætti forseta Bandaríkjanna öðru sinni.

Þegar Trump lýsti því yfir í júní árið 2015, að hann hygðist gefa kost á sér sem frambjóðandi Repúblikana í komandi forsetakosningum, benti fátt til þess að hann yrði sigurstranglegur. Skoðanakannanir sýndu sáralítið fylgi og álitsgjafar lýstu framboðinu sem brandara.

Hvað gerðist?

Kjörskilyrði fyrir moldvörpur

Í kjölfar skerpukjötsskandalsins velti rithöfundurinn Eiríkur Örn Norðdahl fyrir sér hvers vegna Stefán Einar fengi að reka hlaðvarp sitt hjá „borgaralegasta málgagni landsins“ en neyddist ekki til að reka það „úr kjallara móður sinnar einsog hinar andlegu moldvörpurnar á nasistarófinu“.

Andlegar moldvörpur skríða nú víða úr fylgsnum sínum. Er ástæðan skilyrði sem sköpuðust með tilkomu athyglishagkerfisins.

Athygli fólks er ein verðmætasta auðlind veraldar í dag. Þeim, sem tekst að fanga athygli okkar, eru allir vegir færir. Gildir einu hvort um ræðir stjórnmálamann, hlaðvarpsstjóra, tæknifyrirtæki eða áhrifavald.

Ofgnótt upplýsinga hefur hins vegar leitt til harðnandi baráttu um athyglina. Stöðugt þarf meira til að ná eyrum okkar; djarfari yfirlýsingar, öfgafylltri upphrópanir.

Fátt grípur athyglina hraðar en það sem hneykslar okkur.

Það sem eiginmaður minn gerði

Hvað gerði eiginmaður minn í kjölfar þess að ég greindi honum frá ummælum Stefáns Einars Stefánssonar um Nönnu Rögnvaldardóttur? Jú, hann kveikti beint á Þjóðmálum.

Leiktækið „whac-a-mole“ sést í leiktækjasölum víða um heim en leikurinn gengur út á að reka moldvörpur, sem skjótast upp úr holum sínum, aftur ofan í myrkrið með því að slá þær með hamri.

Andlegar moldvörpur skríða nú víða úr fylgsnum sínum.Vísir/Getty

Hinar andlegu moldvörpur sem leita nú í ljósið verða ekki kveðnar í kútinn með hamri hneykslunar og reiði.

Í fyrstu ræðu sinni sem forsetaframbjóðandi kynnti Trump til leiks þá aðferðafræði sem fleytti honum í forsetastól: „Þeir koma með fíkniefni, þeir koma með glæpi, þetta eru nauðgarar,“ sagði hann um mexíkósku þjóðina og kvaðst mundu reisa vegg á landamærum Bandaríkjanna.

Donald Trump varð forseti því honum tókst að stela athyglinni með svo yfirgengilegum staðhæfingum að ekki virtist annað hægt en að beina að honum sjónvarpsmyndavélunum.

En við höfum val.

Herra forseti, Stefán Einar Stefánsson

Málsvarar Nönnu Rögnvaldardóttur, sem andmæltu orðum Stefáns Einars, jusu hana lofi með orðum á borð við „djásn“ og „þjóðargersemi“.

Efaðist einhver um að Nanna stæði undir hólinu var rithöfundurinn ekki lengi að taka af allan vafa.

Þegar Vísir náði tali af Nönnu, sem stödd var á Azor-eyjum, sagðist hún hafa hlegið ógurlega af orðum viðskiptasiðfræðingsins. „Mér dettur ekki í hug að taka svona illa. Ekki frá manni eins og Stefáni Einari.“ Kvað hún enga ástæðu til að reiðast fyrir sína hönd.

Það er á vængjum hneykslunar okkar sem hinn umdeildi hlaðvarpsstjóri hefst til metorða.

Fái eldur hins vegar ekki súrefni slokknar hann.

Nanna Rögnvaldardóttir kann þá list að taka á andlegum moldvörpum athyglishagkerfisins.

Viljum við ekki heyra orðin „herra forseti, Stefán Einar Stefánsson“ í nánustu framtíð ættum við öll að lesa næstu bók Nönnu Rögnvaldardóttur sem ber vonandi titilinn: Draumalandið – Sjálfshjálparbók handa hneykslaðri þjóð.


Tengdar fréttir

Líkti Nönnu við skerpukjöt og uppskar gífurlega reiði

Ummæli fjölmiðlamannsins Stefáns Einars Stefánssonar um útlit Nönnu Rögnvaldardóttur rithöfundar í Þjóðmálum hafa vakið ofsareiði á samfélagsmiðlum. Stefán Einar segir að sér þyki ágætt að sjá menningarelítu landsins ærast vegna málsins en sjálf segir Nanna það óþarft að reiðast fyrir hennar hönd.

Múrinn hans Donald Trump: Um hvað snýst málið?

Bandaríkjaforseti skrifaði í vikunni undir tilskipun um að framkvæmdir skuli hefjast við byggingu ókleifs múrs á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó eins fljótt og auðið er.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.