Körfubolti

Tíma­bilið búið hjá Butler

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Jimmy Butler lenti í þriðju alvarlegu hnémeiðslunum á ferlinum í nótt.
Jimmy Butler lenti í þriðju alvarlegu hnémeiðslunum á ferlinum í nótt. Tayfun Coskun/Anadolu via Getty Images

Jimmy Butler hefur lokið leik á þessu tímabili með Golden State Warriors í NBA körfuboltadeildinni eftir að hafa slitið krossband í sigri liðsins gegn Miami Heat í gærkvöldi.

Warriors voru þarna að vinna sinn tólfta sigur í síðustu sextán leikjum en sigurinn reyndist afar dýrkeyptur.

Butler féll til jarðar, án utanaðkomandi snertingar, um miðjan þriðja leikhluta og hélt sárkvalinn um hnéð.

Nú hefur komið í ljós að krossband í hnénu er slitið og Butler mun því ekki spila meira á þessu tímabili.

Fyrir kaldhæðni örlaganna var það gegn hans fyrrum félagi, Miami Heat, sem Butler meiddist. Hann eyddi nánast öllu síðasta tímabili í að reyna að losna frá félaginu og ganga til liðs við Golden State Warriors.

Jimmy Butler reyndist mikill liðsstyrkur fyrir Golden State Warriors á síðasta tímabili. Michael Reaves/Getty Images

Eftir að Butler kom til Warriors í fyrra var liðið eitt af betri liðum deildarinnar, en það datt síðan úr leik í úrslitakeppninni gegn Minnesota Timberwolves eftir að Stephen Curry meiddist í fyrsta leik viðureignarinnar.

Stjórnendur félagsins byggðu á því fyrir þetta tímabil og héldu í kjarnann, Curry, Butler og Draymond Green, en nú er Butler dottinn út. Draymond hefur einnig verið að glíma við meiðsli og tók ekki þátt í leik gærkvöldsins.

Jimmy Butler er orðinn 36 ára gamall og verður frá í hátt í heilt ár. Meiðslin setja Warriors í mikil vandræði því hann er á risasamningi og þá er óvíst hversu öflugur Butler verður þegar hann kemur til baka því þetta eru þriðju alvarlegu hnémeiðslin á hans ferli.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×