Sport

Ó­trú­legt hetjukast varð að engu

Sindri Sverrisson skrifar
Draumur Chicago Bears varð að engu í gærkvöld þegar liðið féll úr leik gegn LA Rams.
Draumur Chicago Bears varð að engu í gærkvöld þegar liðið féll úr leik gegn LA Rams. Getty/Michael Reaves

Nú er orðið ljóst hvaða lið mætast í undanúrslitum NFL-deildarinnar. Chicago Bears verða ekki þar á meðal þrátt fyrir ótrúlegt hetjukast Caleb Williams í hádramatískum, framlengdum leik í gærkvöld.

Bears urðu að lokum að sætta sig við 20-17 tap í framlengdum leik gegn Los Angeles Rams. Þeir voru 17-10 undir þegar aðeins 21 sekúnda var eftir af venjulegum leiktíma, og Bears í fjórðu tilraun, þegar Williams átti hreint lygilega 51 jarda sendingu á Cole Kmet í endamarkinu.

Cairo Santos bætti svo við aukastigi og knúði fram framlengingu þar sem Bears-vörnin náði svo að stöðva fyrstu tilraun Rams og búa til möguleika á að Williams tryggði liðinu sigur. Þá gerði hann hins vegar slæm mistök og kastaði 20 jarda sendingu í hendurnar á Kam Curl, varnarmanni Rams, og í kjölfarið skoraði Harrison Mevis vallarmark af 42 jarda færi og tryggði Rams sigur.

Þar með er enn möguleiki á því að Matthew Stafford, leikstjórnandi Rams, mæti Rake Maye kollega sínum hjá New England Patriots, í Superbowl-leiknum 8. febrúar. Þeir tveir eru taldir líklegastir til að hljóta MVP-verðlaunin.

Það skýrist um næstu helgi en þá mæta Rams liði Seattle Seahawks í NFC-úrslitaleiknum. Seahawks unnu 41-6 risasigur gegn San Francisco 49ers á laugardaginn.

Í AFC-úrslitaleiknum mætast New England Patriots og Denver Broncos.

Úrslitaleikur NFL-deildarinnar, Super Bowl 60, verður svo sunnudaginn 8. febrúar á Levi‘s leikvangnum í Santa Clara í Kaliforníu, að sjálfsögðu í beinni útsendingu á Sýn Sport eins og aðrir leikir.

NFL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×