Erlent

Bein út­sending: Flytja fimm þúsund tonna eld­flaug á skotpall fyrir tunglskot

Samúel Karl Ólason skrifar
Space Launch System eldflaugin og Orion geimfarið í Flórída. Stæðan, sem er rúmlega fimm þúsund tonn að þyngd, hefur ferðalagið á skotpall í dag.
Space Launch System eldflaugin og Orion geimfarið í Flórída. Stæðan, sem er rúmlega fimm þúsund tonn að þyngd, hefur ferðalagið á skotpall í dag. AP/Keegan Barber, NASA

Starfsmenn Geimvísindastofnunar Bandaríkjanna (NASA) ætla í dag að flytja stærðarinnar eldflaugasamstæðu á skotpall í Flórída. Nota á Space Launch System eldflaug til að skjóta fjórum geimförum um borð í Orion geimfari af stað til tunglsins snemma í næsta mánuði.

Þetta verður í fyrsta sinn frá árinu 1972 sem menn verða sendir til tunglsins en geimferiðin kallast Artemis 2 og er liður í Artemisáætluninni. Ekki stendur til að lenda geimförum á tunglinu að þessu sinni heldur munu geimfararnir verja um tíu dögum í að ferðast til tunglsins, fara á braut um tunglið og snúa aftur heim til jarðar.

Um er að ræða undirbúning fyrir Artemis 3 en þá stendur til að lenda geimförum á yfirborði tunglsins. Vonast er til að það geimskot eigi sér stað fyrir árið 2028.

Stæðan er, þegar þetta er skrifað, í sérstakri byggingu í Kennedy-geimmiðstöðinni í Flórída, þar sem eldflaugastæður eru settar saman. Hún verður svo flutt á skotpall 39B í dag.

Taka mun rúmlega tólf klukkustundir að flytja þessi rúmu fimm þúsund tonn á skotpall, gangi allt eftir. Til stendur að skjóta geimförunum að stað til tunglsins þann 6. febrúar.

Hægt er að fylgjast með hasarnum í spilaranum hér að neðan. Útsendingin hefst klukkan tólf.

Artemis-áætlunin snýst í stuttu máli um að senda geimfara aftur til tunglsins og koma þar upp varanlegri viðveru. Nota á tunglið sem stökkpall lengra út í sólkerfið. Í grískri goðafræði er Artemis systir Apollos.

Um mitt ár 2027 á, samkvæmt áætlunum NASA, að lenda geimförum á tunglinu í fyrsta sinn frá desember 1972, þegar geimfararnir Gene Cernan og Harrison Schmitt urðu ellefti og tólfti maðurinn til að ganga á yfirborði tunglsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×