Erlent

Hótar tollum á ríki sem standa með Græn­lendingum

Samúel Karl Ólason skrifar
Donald Trump virðist ekki sáttur við að hann fái ekki meiri stuðning varðandi mögulega yfirtöku Grænlands.
Donald Trump virðist ekki sáttur við að hann fái ekki meiri stuðning varðandi mögulega yfirtöku Grænlands. AP/Alex Brandon

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, segist mögulega ætla að beita ríki þar sem ráðamenn eru ekki fylgjandi ætlunum hans varðandi yfirtöku Grænlands tollum.

Þetta var meðal þess sem Trump sagði á hrinborðsumræðum um fjárfestingar í dreifbýli í Bandaríkjunum í Hvíta húsinu í dag. Hann var að ræða kostnað lyfja og tolla þegar hann sneri sér skyndilega að Grænlandi.

„Ég gæti gert það með Grænland líka. Ég gæti beitt ríki sem fylgja ekki með Grænland,“ sagði Trump.

„Við þurfum Grænland vegna þjóðaröryggis, svo ég gæti gert það með Grænland."

Trump fór ekki nánar út í ætlanir sínar varðandi tolla og Grænland.

Forsetinn hefur ítrekað á undanförnum árum haldið því fram að Bandaríkin þurfi að eignast Grænland vegna þjóðaröryggis. Hann hefur meðal annars sagt landið mikilvægt fyrir eldflaugavarnir Bandaríkjanna og Trump-liðar hafa einnig talað um að koma höndum yfir auðlindir sem finna má þar, eins og sjaldgæfa málma.

Utanríkisráðherra Danmerkur og Grænlands héldu í vikunni til Washington DC, þar sem þau funduðu með utanríkisráðherra og varaforseta Bandaríkjanna. Ráðamenn ríkjanna eru ekki sammála um hvaða niðurstöðum komist var að á fundinum.

Trump hefur verið sagt að Bandaríkin þurfa ekki að eignast Grænland til að bæta varnir Bandaríkjanna. Bæði löndin eru aðilar að Atlantshafsbandalaginu og þar að auki er Bandaríkjamönnum heimilt að fjölga hermönnum, hergögnum og herstöðvum á Grænlandi.

Í nýlegu viðtali við blaðamenn New York Times var Trump bent á að samkvæmt gömlum sáttmála frá 1951 við Grænlendinga og Dani mættu Bandaríkjamenn auka viðveru sína á Grænlandi, án þess að þurfa að eignast eyjuna.

Hann sagði það ekki skipta máli. Eignarhald skipti miklu máli.

Þegar hann var spurður af hverju svo væri sagði Trump:

„Af því að það finnst mér þurfa sálfræðilega til að ná árangri. Ég held að eignarhald gefi þér hluti sem leiga eða samningur gerir ekki. Eignarhald gefur þér hluti sem þú getur ekki fengið með því að skrifa eingöngu undir skjal.“

Umfangsmiklir tollar sem Trump hefur beitt svo gott sem öll ríki heims hafa leitt til umfangsmikilla málaferla, sem ríkisstjórnin hefur ekki komið vel út hingað til. Trump beitti þeim á grunni laga um neyðarástand frá 1977. Þessum lögum hafði þangað til að mestu verið beitt til að koma á refsiaðgerðum vegna ógna gegn Bandaríkjunum.

Áfrýjunardómstóll úrskurðaði flesta tolla Trump, eins og viðskiptahallatollana og tolla á ríki eins og Kína, Kanada og Mexíkó, ólögmæta en þeir fengu þrátt fyrir það að standa óbreyttir, þar til þeir verða teknir fyrir af hæstarétti Bandaríkjanna. Von er á úrskurði þaðan innan skamms.


Tengdar fréttir

Milljónir Bandaríkjamanna hafi þungar áhyggjur vegna Grænlands

„Ég er hér í dag vegna þess að milljónir Bandaríkjamanna hafa þungar áhyggjur af orðræðunni um yfirtöku Bandaríkjanna á Grænlandi, annað hvort með því að kaupa landið eða beita hervaldi,“ sagði öldungadeildarþingmaðurinn Jeanne Shaheen nú fyrir hádegi.

Þingmenn sem Trump sagði heimska lúffuðu

Repúblikanar í öldungadeild Bandaríkjaþings felldu í gær frumvarp sem hefði dregið úr völdum Donalds Trump, forseta, til að gera frekari árásir á Venesúela. Það er eftir að tveir þingmenn flokksins sem höfðu stutt frumvarpið lúffuðu undan þrýstingi frá Hvíta húsinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×