Körfubolti

Stjörnuleikmaður fékk borgaðar tugi milljóna fyrir að spila illa

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Antonio Blakeney treður boltanum í körfuna í leik með ísraelska félaginu Hapoel IBI Tel Aviv í Euroleague í vetur.
Antonio Blakeney treður boltanum í körfuna í leik með ísraelska félaginu Hapoel IBI Tel Aviv í Euroleague í vetur. Getty/Giuseppe Cottini

Körfuboltastjarnan Antonio Blakeney er einn tuttugu sakborninga sem ákærðir eru í umfangsmiklu veðmálasvindli sem sagt er hafa falið í sér að hagræða úrslitum í leikjum í bandaríska háskólaboltanum og í kínversku körfuboltadeildinni (CBA) á árunum 2022 til 2025.

Blakeney er sagður hafa þegið tvö hundruð þúsund dollara, meira en 25 milljónir króna, fyrir að standa sig verr en venjulega í Kína. Blakeney spilar nú í EuroLeague en nafn hans kemur fram í umfangsmiklu veðmálasvindli samkvæmt ákæru sem birt var á fimmtudag í Fíladelfíu í Bandaríkjunum.

Svindlið er sagt hafa staðið yfir frá september 2022 til febrúar 2025 og er talið hafa svikið fé af mörgum veðmangörum og einstökum veðmálahöfum.

Tuttugu sakborningar í ákærunni

Alls eru tuttugu sakborningar nefndir í ákærunni, þar á meðal leikmenn sem sagðir eru hafa samþykkt að hagræða úrslitum leikja í skiptum fyrir mútur, auk svokallaðra „milliliða“ sem síðan lögðu háar fjárhæðir undir hin fölsuðu úrslit.

Samkvæmt ABC News eru tveir sakborningar, Marves Fairley og Shane Hennen, sagðir hafa fengið Blakeney, sem nú er stjörnubakvörður hjá Hapoel Tel Aviv í Ísrael, til liðs við sig.

Átti að standa sig vísvitandi verr í leikjum

Blakeney, sem var valinn í úrvalslið háskóladeildarinnar og var stigahæstur á meðan hann lék í CBA, var að sögn boðið mútugreiðslur í skiptum fyrir að standa sig vísvitandi verr í leikjum. Saksóknarar halda því einnig fram að Blakeney hafi fengið aðra liðsfélaga til að taka þátt í svindlinu.

Eftir að hafa hagnast á fölsuðum leikjum í CBA eru Fairley, Hennen og Blakeney sagðir hafa beint sjónum sínum að bandaríska háskólakörfuboltanum.

Þeir eru sakaðir um að hafa fengið leikmenn til að tryggja að lið þeirra næðu ekki að standast veðmálaforskot, annaðhvort í fyrri hálfleik eða í heilum leikjum.

Svindlið hófst árið 2022

Samkvæmt The Athletic segja saksóknarar að svindlið hafi hafist árið 2022, þegar Fairley og Hennen fengu Blakeney fyrst til liðs við sig á meðan hann lék með Jiangsu Dragons í CBA.

Blakeney, sem hafði áður leikið tvö tímabil í NBA með Chicago Bulls, var að sögn beðinn um að hagræða frammistöðu sinni svo milliliðirnir gætu lagt undir vinningsveðmál frá Bandaríkjunum.

Í einum leik í mars 2023 var Jiangsu talið 11,5 stiga sigurstranglegra liðið. Fairley og Hennen eru sagðir hafa veðjað 198.300 dollurum í spilavíti í Pennsylvaníu, auk annarra veðmála annars staðar.

Skoraði langt undir meðaltali sínu

Blakeney skoraði aðeins ellefu stig í þeim leik, langt undir meðaltali sínu á tímabilinu sem var yfir 32 stig, og Jiangsu tapaði með 31 stigi.

Seinna í sama mánuði halda saksóknarar því fram að Blakeney hafi tilkynnt milliliðunum að hann myndi ekki spila í leik þann 15. mars en að varamaður hans myndi þiggja greiðslu og vera samvinnuþýður.

Fairley og Hennen eru sagðir hafa lagt undir samtals um hundrað þúsund dollara í veðmálum á þann leik.

Blakeney er sagður hafa fengið tvö hundruð þúsund dollara í lok tímabilsins.

Á þessu tímabili í EuroLeague er Blakeney með 13,8 stig og 2,4 fráköst að meðaltali í leik en hann er næststigahæsti leikmaður liðsins sem er í efsta sæti EuroLeague.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×