Innlent

Fá þau að vera aftur á lista með Hildi?

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Hildur Björnsdóttir verður á lista Sjálfstæðisflokksins fyrir komandi kosningar en ekki er útséð hvaða aðrir núverandi borgarfulltrúar munu komast á lista.
Hildur Björnsdóttir verður á lista Sjálfstæðisflokksins fyrir komandi kosningar en ekki er útséð hvaða aðrir núverandi borgarfulltrúar munu komast á lista. Vísir

Sjálfkjörið var í kjörnefnd Varðar sem sér um uppstillingu á lista Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórnarkosningunum. Allir núverandi borgarfulltrúar sem Vísir hefur náð tali af vilja aftur í framboð, ekki náðist í einn. Oddviti segist finna gríðarlegan áhuga fólks á því að fá sæti á lista flokksins.

Líkt og fram hefur komið verður Hildur Björnsdóttir oddviti Sjálfstæðisflokksins að nýju í komandi borgarstjórnarkosningum. Ekki kom til prófkjörs um fyrsta sætið líkt og til stóð eftir að Guðlaugur Þór Þórðarson tilkynnti að hann færi ekki fram. Uppstillingarnefnd Varðar félags sjálfstæðismanna í Reykjavík mun raða í hin 45 sætin.

Tilkynnt var í vikunni að sjálfkjörið væri í öll átta sæti fulltrúa Varðar í kjörnefndinni. Áður höfðu nítján manns lýst yfir framboði til sætanna átta. Albert Guðmundsson formaður Varðar segir það eiga sér ýmsar skýringar, meðal annars þá að nokkrir fulltrúar hafi fengið skipun í kjörnefndina með öðrum hætti, í gegnum sérfélög. Félag eldri sjálfstæðismanna í Reykjavík, Heimdallur, Málfundafélagið Óðinn og Hvöt eiga öll fulltrúa í kjörnefndinni sem telur alls fimmtán manns.

„Í öðrum tilvikum var það þannig að einhverjir sáu sér ekki fært að taka þátt þar sem störf nefndarinnar hefjast fyrr en ella þar sem ekki varð af neinu leiðtogaprófkjöri. Svo hafa einhverjir dregið sig til baka af persónulegum ástæðum,“ segir Albert. 


Eftirfarandi tilkynning birtist í vikunni á vef Sjálfstæðisflokksins:

Kjörnefnd Varðar, fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík er nú fullskipuð, en eftirtaldir voru sjálfkjörnir í nefndina í gær, miðvikudaginn 14. janúar:

Erla Ósk Ásgeirsdóttir

Heimir Hannesson

Magnús Geir Sigurgeirsson

Nanna Kristín Tryggvadóttir

Sandra Hlíf Ocares

Signý Pála Pálsdóttir

Sigríður Ragna Sigurðardóttir

Þórdís Pálsdóttir

Eftirtaldir voru skipaðir af stjórn Varðar, fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík:

Bessí Jóhannsdóttir

Elín Jónsdóttir

Leifur Skúlason Kaldal

Þá voru skipuð í nefndina af hálfu sérfélaga:

Einar Hjálmar Jónsson - Félag eldri sjálfstæðismanna í Reykjavík

Geir Zoëga - Heimdallur

Hildur Hauksdóttir - Málfundafélagið Óðinn

Valgerður Sigurðardóttir - Hvöt

Fullskipuð kjörnefnd:

Bessí Jóhannsdóttir

Einar Hjálmar Jónsson

Elín Jónsdóttir

Erla Ósk Ásgeirsdóttir

Geir Zoëga

Heimir Hannesson

Hildur Hauksdóttir

Leifur Skúlason Kaldal

Magnús Geir Sigurgeirsson

Nanna Kristín Tryggvadóttir

Sandra Hlíf Ocares

Signý Pála Pálsdóttir

Sigríður Ragna Sigurðardóttir

Valgerður Sigurðardóttir

Þórdís Pálsdóttir


Er þetta til marks um að sögulegar sættir hafi orðið á milli fylkinga í flokknum?

„Ég þori nú ekki að fullyrða neitt um sögulegar sættir en ég held það sé almenn ánægja með hópinn. Það eru alltaf skiptar skoðanir á þeirri leið sem er farin í að velja fólk, hvort það eigi að vera leiðtogakjör eða uppstilling. Það verður aldrei fullkomin sátt en ég veit ekki betur en að flestir séu sáttir við þessa leið.“

Samkvæmt heimildum Vísis mun kjörnefnd Varðar gefa sér rúman tíma til þess að setja saman lista flokksins. Búist sé við því að nefndin skili af sér endanlegum lista öðru hvoru megin við mánaðamót febrúar og marsmánaða. Mikil stemning er í kringum framboð flokksins sem mældist í síðustu könnun Gallup með 35 prósenta fylgi. Flokkurinn hefur ekki verið í meirihluta í borgarstjórn síðan árið 2010, fyrir sextán árum síðan. Þar áður hafði flokkurinn gengið eyðimerkurgöngu í svipað langan tíma í minnihluta í Reykjavík með tilkomu R-listans árið 1994.

Þegar útlit er fyrir svo gott gengi er eðli málsins samkvæmt mikil spenna fyrir því hverjir munu skipa væntanlegan lista. Áður hefur verið kallað eftir því að algjörar breytingar verði gerðar á listanum, Hildi verði haldið sem oddvita en öllum öðrum sópað í burtu. Það gerði Halldór Halldórsson, fyrrverandi oddviti flokksins, í ágúst síðastliðnum í Þjóðmálum, sagði borgarstjórnarflokkinn núverandi vera ósamhentan og lítið hafa breyst síðan 2018.

Listinn verði að vera fjölbreyttur

Hildur Björnsdóttir er óskoraður leiðtogi flokksins í borginni og oddviti. Hún mun samkvæmt svörum formanns Varðar til Vísis sem slíkur þó ekki eiga neina formlega aðkomu að vali á listanum. En hvernig lista vill hún sjá, nýja frambjóðendur eða halda í reynslu?

„Við stöndum frammi fyrir því spennandi verkefni á næstu vikum að stilla upp sigurstranglegum framboðslista,“ segir Hildur í skriflegu svari til Vísis. Það verkefni sé í höndum kjörnefndar.

„En ég myndi auðvitað vilja sjá öflugan hóp fólks, með fjölbreyttan bakgrunn sem hefur hæfileikana til að leysa þau flóknu viðfangsefni sem bíða í borginni. Hóp sem hefur raunverulega viljann og getuna til að standa við loforðin um breytingar í Reykjavík. Við finnum gríðarlegan áhuga á því að taka sæti á framboðslistanum, kjörnefnd stendur því frammi fyrir flóknu verkefni en ég er sannfærð um að þetta muni lukkast vel og hlakka til komandi mánaða.“

Allir vilja aftur í framboð, óvíst með einn

Sjálfstæðisflokkurinn á sex borgarfulltrúa í borgarstjórn Reykjavíkur nú. Vísir náði í fimm þeirra og svara þau því öll til að þau hafi hug á því að bjóða sig fram að nýju. Ekki náðist í Mörtu Guðjónsdóttur við vinnslu fréttarinnar, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir. 


Efstu tíu sætin á lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík árið 2022:

1. sæti Hildur Björnsdóttir, lögfræðingur og borgarfulltrúi

2. sæti Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir, MSc þjónustustjórnun

3. sæti Kjartan Magnússon, varaþingmaður

4. sæti Marta Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi

5. sæti Björn Gíslason, borgarfulltrúi og fyrrv. slökkviliðsmaður

6. sæti Friðjón R. Friðjónsson, framkvæmdastjóri

7. sæti Helgi Áss Grétarsson, lögfræðingur og stórmeistari

8. sæti Sandra Hlíf Ocares, lögfræðingur

9. sæti Jórunn Pála Jónasdóttir, lögmaður og borgarfulltrúi

10. sæti Birna Hafstein, leikkona, formaður FÍL stéttarfélags


Sjálfstæðisflokkurinn þurfi að stækka

Ragnhildur Alda upplýsti um það fyrr í janúar að hún hygðist sækjast eftir öðru sæti að nýju, hinu sama og hún var í árið 2022. Ragnhildur Alda laut í lægra haldi í aðdraganda þeirra kosninga í oddvitaslag gegn Hildi Björnsdóttur.

„Fyrir mitt leyti er ég alltaf mjög hörð prófkjörskona og hef alltaf verið á þeirri línu. Þetta er sú aðferð sem var valin og maður þarf að lifa með því,“ segir Ragnhildur Alda nú í samtali við Vísi. Hún tekur fram að hún treysti kjörnefndinni til að velja góðan og samhentan lista.

Ragnhildur Alda rifjar upp að hún hafi hlotið gott fylgi meðal flokksmanna árið 2022.Vísir/Vilhelm

Hún segist vongóð um að fá ósk sína um sæti uppfyllta og bendir á störf sín á kjörtímabilinu og fylgi í prófkjöri fyrir fjórum árum. Hún nefnir sérstaklega vinnu í sínu hverfi, gamla vesturbænum. Ragnhildur Alda segist ekki telja ráðlegt að skipta öllum borgarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins út utan Hildar.

„Sjálfstæðisflokkurinn þarf ekki á því að halda að minnka núna. Með hreinsunum þá ertu bara að fara að minnka flokkinn. Flokkurinn þarf á því að halda núna að sameinast og stækka. Það er það sem ég er að vinna að og ég er að gera. Það er mitt markmið.“

Pólitík reynsluvísindi

Kjartan Magnússon hlaut þriðja sætið í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins fyrir kosningarnar 2022. Hann hafði fjórum árum áður ekki hlotið náð í augum uppstillingarnefndar og var því utan borgarstjórnar árið 2018 til 2022. Áður hafði hann setið óslitið í borgarstjórn frá árinu 1999.

„Ég gef kost á mér að nýju á lista,“ segir Kjartan í samtali við Vísi. Hann segir málið í höndum kjörnefndar en rifjar upp að vel hafi gengið hjá honum á kjörtímabilinu. Kjartan var næstvinsælasti borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins á eftir Hildi Björnsdóttur samkvæmt könnun Maskínu sem gerð var árið 2023. Kjartan segist telja við hæfi að hann yrði ofarlega á lista, en kjörnefndin ráði því.

Kjartan á landsfundi Sjálfstæðisflokksins árið 2022 ásamt Viggó Haraldi Viggóssyni.Vísir/Vilhelm

Hann segir umræðu um það hvort gera eigi grundvallarbreytingar á lista flokksins koma upp við hverjar kosningar. „Svo hefur það verið þannig, allavega í prófkjörum þegar flokksmenn velja listann, að þá er blanda af gömlu og nýju fólki. Pólitík er reynsluvísindi. Það skiptir máli að hafa fólk sem er reynt og þetta er flókið að mörgu leyti, þetta snýst um samstarf við fólk í öðrum flokkum, líka um að kíta stundum við embættismenn. Það hafa allir sitt agenda, pólitíkusar og embættismenn og það er nauðsynlegt að þetta verði blanda, að þarna verði líka reynt fólk.“

Vonast eftir því að vera á svipuðum slóðum

Björn Gíslason fyrrverandi slökkviliðsmaður sat í fimmta sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í síðustu kosningum. Hann hafði sóst eftir þriðja sæti í prófkjöri. Hann fór fyrst í borgarstjórn árið 2018. Björn segist bjóða fram starfskrafta sína að nýju í þetta skiptið og vonast eftir því að vera á svipuðum slóðum á lista flokksins.

Björn er vongóður um að hljóta náð fyrir augum kjörnefndar.Vísir/Vilhelm

„Verður maður ekki bara að vera vongóður? Nú fara þau yfir þetta allt saman og skoða þetta vel í þaula. Þetta verður örugglega gott mannval,“ segir Björn. Hann segir það ekki góðri lukku stýra að setja alfarið nýtt fólk á lista.

„Ætli þetta verði ekki eitthvað í bland. Það er ekki gott að henda út allri reynslu.“

Þurfi ný andlit og ný nöfn

Friðjón R. Friðjónsson sat í sjötta sæti á lista Sjálfstæðisflokksins fyrir kosningar 2022 og varð því síðasti maður flokksins inn í borgarstjórn í það skiptið. Hann segir í samtali við Vísi að það sé spennandi að fá að taka þátt í breytingum á stjórn borgarinnar.

„Þannig ég geri ráð fyrir því að ég setji nafn mitt í pottinn en það eru mjög margir sem gefa kost á sér. Það á enginn heimtingu á neinu,“ segir Friðjón sem bætir því við að það sé góð stemning innan Sjálfstæðisflokksins. „Það er gaman að sjá hvernig við erum öll að einhenda okkur í það að vinna þessar kosningar, það er góður bragur og góður kontrast við það sem er að gerast í Samfylkingunni þar sem hver sáttahöndin er upp á móti hver annarri.“

Friðjón segist hafa lært margt á kjörtímabilinu.Vísir/Einar

Muntu gera kröfu um ákveðið sæti á listanum?

„Það er ótímabært að ræða það. Ég held við þurfum ný andlit og ný nöfn og við höfum svigrúm því okkur gengur vel í könnunum. Þetta verður áhugavert og erfitt verkefni,“ segir Friðjón. Hann segir að það yrði misráðið að bjóða fram algjörlega óreyndan lista.

„Það tekur tíma fyrir fólk að læra á starfið, læra á verkefnið. Það hefur mikið gildi, það verður til stofnanaminni. Ég hef fundið það sjálfur, mér finnst ég vera betri borgarfulltrúi núna heldur en ég var fyrir þremur og hálfu ári. Það er þannig í öllum störfum, það tekur mann tíma að finna kaffivélarnar og innstungurnar. Að sjálfsögðu verðum við að sjá einhver ný andlit, öflug andlit og ég er mjög hlynntur því. En þetta er allt flott fólk, ég öfunda ekkert kjörnefndina.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×