Innlent

Fékk 69 milljónir króna fyrir söluna

Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifar
Pétur Marteinsson býður fram krafta sína í oddvitasæti Samfylkingarinnar. Prófkjörið fer fram aðra helgi.
Pétur Marteinsson býður fram krafta sína í oddvitasæti Samfylkingarinnar. Prófkjörið fer fram aðra helgi. Vísir/vilhelm

Félag í eigu Péturs Marteinssonar sem býður sig fram sem oddviti í prófkjöri Samfylkingar fékk 69 milljónir króna fyrir sölu á hlut í lóð í Skerjafirði sem hann og viðskiptafélagar hans fyrirhuguðu að byggja íbúðir á fyrir tveimur árum. Hann segist hafa unnið að verkefninu í fimm ár en uppbygging hafi tafist vegna kerfislegra og pólitískra þátta. Það hafi því verið ákveðið að selja félagið sem heldur á lóðinni til annarra eigenda.

Reykjavíkurborg úthlutaði Pétri og tveimur öðrum viðskipafélögum lóð í Nýja Skerjafirði árið 2018 eftir að þeir sigruðu í hönnunarsamkeppni borgarinnar um hagkvæmt húsnæði undir nafninu HOOS 1 sem var í eigu félagsins Frambúðar sem er svo í eigu félaganna.

Samkvæmt samningi við borgina er um að ræða fimm þúsund fermetra lóð með byggingarrétt fyrir allt að 140 íbúðir. Fjárfestingarfélagið Miðbæjareignir/Kjölur keypti hlut í HOOS 1 upp á 42 milljónir króna árið 2021 og svo aftur árið 2023 þegar það keypti restina af hlutafénu fyrir 189 milljónir. Pétur og félagar fengu því samtals 207 milljónir króna fyrir félagið HOOS 1.

Í samtali við fréttastofu segir Pétur að eftir að hafa sigrað í hugmyndasamkeppni borgarinnar árið 2018 um hagkvæmt húsnæði hafi hann og félagar hans greitt 47,5 milljónir króna fyrir úthlutun lóðarinnar í Nýja Skerjafirði. Samkvæmt samningi við borgina á að greiða um 430 milljónir þegar lóðin er byggingarhæf, sem er enn ekki raunin. 

Stoltur af verkefninu

Hann segist hafa unnið í tæp fimm ár að verkefninu og ráðið til sín arkitekta og verkfræðinga. Þeir félagar hafi hins vegar fljótlega lent í miklum töfum vegna kærumála og pólitískra afskipta. Þeir hafi því ákveðið að selja sinn hlut í HOOS 1 til annarra hluthafa sem vildu gera uppbygginuna að veruleika og fengu alls um 207 milljónir króna fyrir félagið. Hlutur hans hafi verið 69 milljónir, um helmingur hafi farið í launagreiðslur og restin í arðgreiðslu.

Pétur segist ekki hafa neina hagsmuni af íbúðauppbyggingu á lóðinni og sé stoltur af verkefninu. Fréttastofa ræðir betur við Pétur Marteinsson í kvöldfréttum Sýnar.

Samkvæmt upplýsingum frá Reykjavíkurborg þarf ekki að leita samþykkis borgarráðs vegna breytinga sem kunna að verða á eignarhaldi félags sem hefur fengið úthlutaða lóð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×