Erlent

Þing­menn sem Trump sagði heimska lúffuðu

Samúel Karl Ólason skrifar
Josh Hawley er annar tveggja öldungadeildarþingmanna Repúblikanaflokksins sem gaf undan þrýstingi frá Hvíta húsinu.
Josh Hawley er annar tveggja öldungadeildarþingmanna Repúblikanaflokksins sem gaf undan þrýstingi frá Hvíta húsinu. AP/Rod Lamkey, Jr.

Repúblikanar í öldungadeild Bandaríkjaþings felldu í gær frumvarp sem hefði dregið úr völdum Donalds Trump, forseta, til að gera frekari árásir á Venesúela. Það er eftir að tveir þingmenn flokksins sem höfðu stutt frumvarpið lúffuðu undan þrýstingi frá Hvíta húsinu.

Demókratar lögðu frumvarpið fram eftir að bandarískir hermenn gerðu árás á Venesúela og numu þaðan Nicolás Maduro, fyrrverandi forseta, á brott til Bandaríkjanna. Þingmönnum hafði ekki verið sagt frá árásinni, sem ríkisstjórnin kallar löggæsluaðgerð.

Fimm þingmenn flokksins höfðu gengið til liðs við Demókrata og stutt frumvarpið í síðustu viku. Í kjölfar þess beitti Trump þessa þingmenn gífurlegum þrýstingi og reyndi að fá þá til að breyta afstöðu sinni.

Í ræðu sem Trump hélt á þriðjudaginn fór hann hörðum orðum um þingmennina fimm. Hann kallaði Rand Paul til að mynda ræfil og þær Lisu Murkowski og Susan Collins hörmungar. Hann hafði áður hringt í þingmennina og hefur þeim símtölum verið lýst sem spennuþrungnum.

Hann hafði einnig kallað þingmennina heimska á samfélagsmiðlum og kallað eftir því að þeir verði aldrei aftur kosnir í opinbert embætti.

Í gær létu þeir Josh Hawley og Todd Young undan og greiddu atkvæði gegn frumvarpinu. Atkvæðagreiðslan í gær fór 50-50 og JD Vance, varaforseti, átti úrslitaatkvæðið og felldi ályktunina.

Donald Trump hefur kallað eftir því að öldungadeildarþingmennirnir fimm verði ekki kjörnir aftur.AP/Evan Vucci

Frumvarpið hefði aldrei orðið að lögum, þar sem Trump hefði þurft að skrifa undir það en AP fréttaveitan segir niðurstöðuna til marks um það að Trump hafi enn sterkt tak á þingmönnum Repúblikanaflokksins. Það hversu tæp atkvæðagreiðslan var sýni þó einnig auknar áhyggjur þingmanna af aðgerðum Trumps erlendis.

Þegar kemur að þeim eru Repúblikanar sagðir hafa töluverðar áhyggjur og þá sérstaklega þegar kemur að hótunum Trumps í garð Grænlands og Danmerkur.

Segir enga hermenn í Venesúela

Fyrr í vikunni sendu Repúblikanar bréf til Hvíta hússins þar sem beðið var um staðfestingu á því að hernaðaraðgerðum í Venesúela væri lokið. Því svaraði Marco Rubio, utanríkisráðherra, í gær og sagði að engir bandarískir hermenn væru í Venesúela.

Þá sagði hann einnig að ef gripið yrði til frekari hernaðaraðgerða yrði það gert í samræmi við stjórnarskrá Bandaríkjanna og þingið yrði látið vita í samræmi við lög. Vísaði hann sérstaklega til laga sem kallast „War powers resolution“ frá 1973. Þeim var ætlað að tryggja völd þingsins, sem hefur samkvæmt stjórnarskrá Bandaríkjanna yfirráð yfir því hvort Bandaríkin fari í stríð.

Mjög hefur verið grafið undan þessum völdum í gegnum árin.

Seinni ríkisstjórn Trumps hefur aldrei látið þingið vita af árásum fyrr en eftir að þær hafa verið gerðar. Eins og til að mynda með árásir á meinta smyglbáta í Kyrra- og Karíbahöfum og árásina í Venesúela.

Bæði Hawley og Young segja, samkvæmt New York Times, að svar Rubio og samtöl þeirra við Trump hafi sannfært þá um að ekki væri lengur þörf á frumvarpinu.

Rand Paul hefur ekki tekið undir það og hefur gagnrýnt leiðtoga Repúblikanaflokksins fyrir að „spila leiki“ og Hvíta húsið fyrir að afvegaleiða þingmenn.

Vísaði hann til þess að fyrst hafi árásir á Venesúela og áðurnefnda báta verið gerðar, að sögn Trump-liða, til að sporna gegn fíkniefnasmygli. Síðan hafi það verið vegna olíu.

Öldungadeildarþingmaðurinn Rand Paul hefur gagnrýnt leiðtoga Repúblikanaflokksins vegna árása Trumps í og við Venesúela.AP/Mariam Zuhaib

Segja aðgerðum ekki lokið

Demókratar segja kolrangt að hernaðaraðgerðum Bandaríkjanna þegar kemur að Venesúela sé lokið. Bandarískir hermenn séu til að mynda búnir að gera áhlaup um borð í nokkur olíuflutningaskip sem tengjast Venesúela og umfangsmikill herafli sé enn á svæðinu.

Þeir segja Repúblikana á þingi vera að bregðast stjórnarskrárbundnu hlutverki þeirra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×