Innlent

Engin fleiri mislingatilfelli greinst

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Guðrún Aspelund gegnir embætti landlæknis á meðan María Heimisdóttir er fjarverandi.
Guðrún Aspelund gegnir embætti landlæknis á meðan María Heimisdóttir er fjarverandi. Vísir/Arnar

Engin ný tilfelli af mislingum hafa greinst frá því að barn greindist með smitsjúkdóminn fyrr í mánuðinum. Fjöldi hefur bólusettur vegna smitsins.

Í byrjun janúar greindist barn með mislinga eftir að það kom heim erlendis frá og var lagt inn á Landspítalann. Barnið er undir átján mánaða aldri en börn fá fyrsta skammt af bóluefni átján mánaða. 

Embætti landlæknis segir að engin ný tilfelli hafi greinst í tilkynningu. Allir sem voru taldir hafa verið útsettir fyrir smiti voru boðaðir í bólusetningu. Þar á meðal voru þeir sem voru samtímis og barnið á Landspítalanum og í flugi til landsins.

Umræddir einstaklingar verða vaktaðir í þrjár vikur þar sem meðgöngutími mislinga getur verið allt að 21 dagur. Hann er yfirleitt sjö til fjórtán dagar.  

Skæður sjúkdómur

Mislingar eru einn skæðasti smitsjúkdómur barna á Íslandi. Í kjölfar bólusetningar með MMR-bóluefni hefur sjúkdómurinn fjarað út og hvarf hérlendis árið 1996.

„Frá þeim tíma hafa aðeins greinst stök tilfelli eða litlar hringur, yfirleitt tengdar innflutningi smits frá útlöndum,“ segir í tilkynningunni.

„Stærsta atvikið síðustu ár var árið 2019 þegar níu einstaklingar greindust með mislinga, þar af sex í hópsýkingu sem rekja mátti til óbólusetts ferðalangs. Þá var gripið til umfangsmikilla aðgerða, þar á meðal bólusetningar á um 6.800 einstaklingum, og tókst að stöðva útbreiðslu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×