Fótbolti

Litla liðið í París sló út stór­veldi PSG

Aron Guðmundsson skrifar
Jonathan Ikoné skoraði eina mark kvöldsins. Hér er hann í leik liðanna í upphafi árs.
Jonathan Ikoné skoraði eina mark kvöldsins. Hér er hann í leik liðanna í upphafi árs. Vísir/Getty

Paris FC gerði sér lítið fyrir og sló út nágranna sína, ríkjandi bikarmeistarana í stórveldi Paris Saint-Germain, er liðin mættust í franska bikarnum í kvöld á Parc des Princes . Lokatölur 1-0 Paris FC í vil.

Liðin tvö mættust í fyrsta Parísarslagnum sín á milli síðan árið 1978 í upphafi þessa árs í frönsku deildinni þar sem að PSG fór með 2-1 sigur af hólmi.

Í kvöld var hins vegar komið að því að liðin mættust í þrjátíu og tveggja liða úrslitum franska bikarsins þar sem Paris Saint-Germain er ríkjandi meistari síðustu tveggja tímabila og er að auki ríkjandi Evrópumeistari félagsliða sem og ríkjandi Frakklandsmeistari.

Skemmst er frá því að segja að úrslit kvöldsins hafi verið söguleg í meira lagi því mark frá Jonathan Ikoné á 74.mínútu sá til þess að Paris FC, litla liðið í París, sló út Paris Saint-Germain.

Aðeins um hundrað metrar skilja heimavelli liðanna að og er saga félaganna tveggja samofin að miklu leiti þar sem að jú eitt sinn voru þau eitt og sama félagið. 

Árið 1970, ári eftir stofnun félagsins, sameinaðist Paris FC, Stade Saint-Germain, í félag sem var kallað Paris Saint-Germain. Það samstarf gekk aðeins í þrjú ár því árið 1972 klofnaði sameinaða félagið í tvö félög, þau sem við nú þekkjum sem Paris FC og Paris Saint Germain. 

Undanfarinn áratug hafði Paris FC dvalið í næstefstu deild Frakklands en fyrir yfirstandandi tímabil tryggði liðið sér sæti í efstu deild á nýjan leik og er nú þegar farið að stríða stóra bróður. 

Paris Saint-Germain óð í færum í kvöld og réði ferðinni í leiknum en tókst ekki að koma boltanum í netið. Bikarmeistarar síðustu tveggja tímabila úr leik. Paris FC er komið áfram í 16-liða úrslit franska bikarsins. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×