Innlent

Gengið á­gæt­lega að slökkva og kalla fólk til baka

Lillý Valgerður Pétursdóttir og Eiður Þór Árnason skrifa
Brynjar Friðriksson, sviðstjóri hjá aðgerðasviði Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins.
Brynjar Friðriksson, sviðstjóri hjá aðgerðasviði Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins. Sýn

Ágætlega gengur að slökkva eldinn sem kviknaði í skemmu sem framleiðslufyrirtækið True North leigir í Gufunesi í Reykjavík, að sögn slökkviliðs. Altjón sé á húsinu og öllu því sem í því var.

Tilkynning barst um eldinn um klukkan fimm í dag og var húsið alelda þegar slökkvilið kom á staðinn. Þetta sagði Brynjar Friðriksson, sviðstjóri hjá aðgerðasviði Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins, í kvöldfréttum Sýnar en hann stýrir jafnframt aðgerðum á vettvangi. 

„Við erum búin að ná að slökkva megnið af eldinum og erum að eltast við hreiður núna í raun og veru.“

Erfitt hafi verið að komast að eldinum í upphafi og einungis sótt að honum ofan frá. Þá hafi fólk ekki verið sent inn í húsið af ótta við að þakið gæti hrunið yfir það. Þegar rætt var við Brynjar á sjöunda tímanum í kvöld var ekki enn búið að senda slökkviliðsmenn inn í húsið en körfubílar voru nýttir til að sprauta vatni undir þakið og inn um hurðaop. 

Settu upp varnir

Nálæg hús voru ekki í hættu, að sögn Brynjars. Fyrstu verkin áður en beint slökkvistarf hófst hafi verið að setja upp varnir milli skemmunnar og húsanna í kring til að draga úr hættunni á því að eldurinn myndi breiðast út. Það hafi sem betur fer staðist.

Reykur frá eldinum hefur stigið hátt og því síður lagst yfir nálægt íbúðahverfi, að sögn Brynjars. Hann geti þó fallið niður þegar kólnar og því sé gott að loka gluggum ef fólk verður vart við einhverja mengun.

Brynjar á von á því að slökkvistarf haldi áfram fram á kvöld en dregið verði úr því eftir því sem aðstæður leyfi. Rétt eftir klukkan sjö var búið að kalla til baka helming af slökkviliðsmönnunum á vettvangi og búið að gera hlé á vatnsdælingu. Unnið er að því að kanna aðstæður og ákveða næstu skref en með því að hætta að dæla losnar slökkviliðið við gufu sem byrgir sýn. 

Fylgjast má með framvindu málsins og nýjustu fregnum í Vaktinni á Vísi


Tengdar fréttir

Stórbruni í Gufunesi

Mikill eldsvoði er í Gufunesi og er slökkviliðið með mikil viðbrögð. Reykur sést víða um höfuðborgarsvæðið. Stjórnarformaður True North segir að mikið tjón hafi orðið á eignum framleiðslufyrirtækisins vegna eldsins. Fylgst er með gangi mála í vaktinni hér að neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×