Handbolti

Eyjakonur fylgja Val fast eftir og KA/Þór hóf nýja árið af krafti

Sindri Sverrisson skrifar
Birna Berg Haraldsdóttir skoraði sjö mörk í dag.
Birna Berg Haraldsdóttir skoraði sjö mörk í dag. Vísir/Diego

Eyjakonur fylgja Val eftir á toppi Olís-deildar kvenna í handbolta með 23-20 sigri gegn Haukum í dag og KA/Þór hóf nýja árið á öflugum sigri gegn ÍR, 23-21.

Leikirnir voru í 12. umferð, þeirri fyrstu eftir jólafrí, en fyrr í dag vann Valur stórsigur gegn Fram, 30-19, og Stjarnan mikilvægan botnbaráttusigur gegn Selfossi, 34-28.

Valur og ÍBV eru nú líkt og í jólafríinu jöfn að stigum í 1.-2. sæti, með 20 stig, en ÍR er í 3. sæti enn með 14 stig. Liðið er núna þremur stigum á undan Haukum, Fram og KA/Þór sem eru með 11 stig hvert. Stjarnan (5 stig) og Selfoss (4 stig) eru þar talsvert á eftir.

Eyjakonur höfðu frumkvæðið allan leikinn gegn Haukum í dag, voru 13-10 yfir í hálfleik og hleyptu Haukum aldrei nær sér eftir það. Sandra Erlingsdóttir fór á kostum og skoraði 11 mörk fyrir ÍBV og Birna Berg Haraldsdóttir skoraði sjö. Hjá Haukum voru Sonja Lind Sigsteinsdóttir, Rakel Oddný Guðmundsdóttir og Jóhanna Margrét Sigurðardóttir með fjögur mörk hver.

Á Akureyri var mikil spenna þó að heimakonur væru 13-9 yfir í hálfleik. ÍR jafnaði smám saman metin og var staðan 19-19 þegar átta mínútur voru eftir. Á lokamínútunni minnkaði Sara Dögg Hjaltadóttir muninn í eitt mark, 22-21, en Sólveig Lára Kristjánsdóttir innsiglaði svo sigur KA/Þórs þegar nokkrar sekúndur voru eftir.

Susanne Pettersen var markahæst hjá KA/Þór með sex mörk og Tinna Valgerður Gísladóttir skoraði fimm. Sara Dögg Hjaltadóttir skoraði sex fyrir ÍR og Vaka Líf Kristinsdóttir fimm.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×