Innlent

Viðveru­stjórn er hluti af sér­fræðiþekkingu mann­auðs­fólks

Jakob Bjarnar skrifar
Ef nýi starfsmaðurinn hættir líka að mæta þarf einfaldlega að auglýsa stöðu sérfræðings í viðverustjórn viðverustjórnarsérfræðingsins. Snorri hefur auglýsinguna í flimtingum en Eva Bergþóra hjá borginni lætur sér hvergi bregða.
Ef nýi starfsmaðurinn hættir líka að mæta þarf einfaldlega að auglýsa stöðu sérfræðings í viðverustjórn viðverustjórnarsérfræðingsins. Snorri hefur auglýsinguna í flimtingum en Eva Bergþóra hjá borginni lætur sér hvergi bregða.

Auglýsing Reykjavíkurborgar eftir sérfræðingi í viðverustjórn hefur vakið talsverða athygli. Snorri Másson varaformaður Miðflokksins til að mynda dró auglýsinguna sundur og saman í háði en Eva Bergþóra Guðbergsdóttir samskiptastjóri borgarinnar lét sér hvergi bregða þegar hún var spurð út í hvað þetta væri eiginlega?

„Viðverustjórn fellur innan sérfræðiþekkingar mannauðsfólks, það er að segja þeirra sem starfa við mannauðsmál í fyrirtækjum og stofnunum,“ segir Eva Bergþóra. 

Reynt að bregðast við auknum veikindum

Og Eva bætir því við, þegar spurt er hvaða menntun sé áskilin, að sérstaklega sé tilgreint í auglýsingunni að framhaldsmenntun á sviði mannauðsmála sé æskileg.

Berghildur Erla Bernharðsdóttir fréttamaður hefur í vikunni fjallað ítarlega um veikindi opinberra starfsmanna og greindi frá því að Reykjavíkurborg til að mynda vilji bregðast við því að starfsfólk þar hefur tekið fleiri veikindadaga síðustu þrjú ár en árin þar á undan. 

Ásta Bjarnadóttir, skrifstofustjóri Starfsþróunar og starfsumhverfis sagði þau vitanlega hafa áhyggjur af þeirri þróun. „Við höfum í nokkur ár verið með sérstakar heilsu- og viðverustefnur,” sagði Ásta. 

Hún sagði jafnframt að auglýst hefði verið eftir sérfræðingi á þessu sviði.

Gerir grín að öllu saman

Snorri Másson henti boltanum á lofti og gerði grín að öllu saman:

„Þegar allir eru hættir að mæta í vinnuna er það eina í stöðunni auðvitað að ráða nýjan starfsmann, nánar tiltekið sérfræðing. Fyrsta verk starfsmannsins er að kanna hvers vegna allir hinir eru hættir að mæta. 

Ef nýi starfsmaðurinn hættir líka að mæta þarf einfaldlega að auglýsa stöðu sérfræðings í viðverustjórn viðverustjórnarsérfræðingsins. Þetta er sjálfbært ferli og má endurtaka þar til vandinn er leystur,“ sagði Snorri á Facebook við miklar undirtektir. Gunnar Smári Egilsson, ritstjóri á Samstöðinni, benti hins vegar á að veikindahlutfall formanns hans, Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, væri talsvert.

Eva Bergþóra sagði þetta verkefni hafa verið lengi í undirbúningi enda legið fyrir í nokkur ár að veikindahlutfall sé hátt og fari hækkandi frekar en hitt. En hvað gerir slíkur sérfræðingur, hvernig ber hann sig að við störf sín?

„Sérfræðingurinn vinnur með almennum stjórnendum (til dæmis leikskólastjóra eða forstöðumanni íbúðakjarna) að því að framfylgja viðverustefnu borgarinnar, er þeim til stuðnings og ráðgjafar. Meðal verkefna er að taka þátt í svokölluðum viðverusamtölum þar sem rætt er við starfsfólk sem er með mikið af skammtímaveikindum.“

Mannauðsfólk leitar eftir hagræðingartillögum

Eva Bergþóra segir að í slíkum samtölum sé starfsmaður upplýstur um umfang fjarvistanna og skoðað hvort vinnustaðurinn geti gert eitthvað.

Eva Bergþóra lætur sér hvergi bregða þegar spurt er um verksvið væntanlegs viðverustjóra.Reykjavíkurborg

„Til dæmis að breyta vinnutíma eða starfshlutfalli, til að auðvelda þeim að mæta betur. Einnig að taka þátt í endurkomusamtölum þegar starfsfólk er að koma til baka eftir langtímaveikindi og að ráðleggja um aðlögun, ef þörf er á, til að fyrirbyggja endurtekin veikindi. Þá getur sérfræðingurinn ráðlagt um nýtingu trúnaðarlæknisþjónustu eða annarra úrræða samkvæmt kjarasamningum.“

Að sögn Evu Bergþóru heyrir sérfræðingur í viðverustjórn undir þá skrifstofu sem hefur með störfin að gera en vinnur þvert á öll svið með almennum stjórnendum. Eva Bergþóra taldi ekki að um pólitískan þrýsting væri að ræða hvað þessa starfsauglýsingu varðar.

„Um er að ræða útfærslu á hugmynd sem kom fram frá mannauðsfólki þegar leitað var eftir hagræðingartillögum innan borgarkerfisins.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×