Upp­gjörið: Ís­land - Slóvenía 32-26 | Frá­bær fyrri hálf­leikur gegn Slóvenum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Orri Freyr Þorkelsson skoraði átta mörk gegn Slóveníu.
Orri Freyr Þorkelsson skoraði átta mörk gegn Slóveníu. vísir/anton

Íslenska karlalandsliðið í handbolta vann öruggan sigur á Slóveníu, 32-26, í æfingamóti í París í Frakklandi í kvöld. Þetta var næstsíðasti leikur Íslands fyrir EM en liðið mætir sigurvegaranum úr leik Frakklands og Austurríkis á sunnudaginn.

Mikil meiðsli hafa herjað á slóvenska liðið í aðdraganda EM og það átti lengst af erfitt uppdráttar í leik kvöldsins. En íslenska liðið gaf engin grið, spilaði frábærlega í fyrri hálfleik og lagði þar grunninn að sigrinum.

Slóvenar mættu gráir fyrir járnum inn í seinni hálfleikinn og börðu bókstaflega taktinn úr Íslendingum. Slóvenía náði þó aldrei að minnka muninn í minna en fjögur mörk og Ísland gaf aftur í undir lokin og kláraði leikinn af öryggi.

Orri Freyr Þorkelsson var markahæstur í íslenska liðinu og á vellinum með átta mörk. Gísli Þorgeir Kristjánsson skoraði fimm og Elliði Snær Viðarsson og Ómar Ingi Magnússon sitt hvor fjögur mörkin. Viktor Gísli Hallgrímsson átti góðan leik í íslenska markinu.

Slóvenar skoruðu fyrsta mark leiksins en það var í eina skiptið sem þeir leiddu í leiknum. Íslendingar svöruðu með þremur mörkum í röð og góður gangur var í leik þeirra.

Í stöðunni 7-5 skoraði Ísland þrjú mörk í röð og náði fimm marka forskoti, 10-5. Íslenska liðið sýndi því slóvenska enga miskunn; sóknarleikurinn var beittur og Ísland skoraði sjö mörk úr hraðaupphlaupum í fyrri hálfleik. Þá tapaði liðið boltanum aðeins einu sinni og var með 75 prósenta skotnýtingu.

Slóvenar áttu engin svör við góðum leik Íslendinga og voru undir á öllum sviðum. Ómar byrjaði leikinn af miklum krafti og skoraði öll fjögur mörkin sín snemma leiks og síðan tók Orri við markakeflinu. Línuspilið gekk líka vel og Gísli var duglegur að finna Elliða í góðum stöðum.

Ísland breytti stöðunni úr 12-8 í 16-8 og leiddi síðan með átta mörkum í hálfleik, 21-13.

Íslendingar skoruðu fyrstu tvö mörk seinni hálfleiks og komust tíu mörkum yfir, 23-13. En þá seig á ógæfuhliðina.

Slóvenar urðu sífellt fastari fyrir í vörninni og hreinlega grófir. Þetta útspil sló vopnin úr höndum íslenska liðsins og eins og oft þegar fer að ganga illa hjá því fór allt úrskeiðis. Það var ekki eitt, heldur allt eins og gerist alltof oft þegar á bjátar. Joze Baznik varði hvert skotið á fætur öðru, dauðafæri fóru í súginn, sóknarleikurinn varð hægur og staður og vörnin lak einnig.

Sem betur fer var andrýmið umtalsvert og Slóvenar nálguðust Íslendinga ekki óþægilega mikið. Minnstur varð munurinn fjögur mörk en þá sló íslenska liðið í klárinn og rauk aftur fram úr.

Íslendingar skoruðu fimm mörk gegn einu og Bjarki Már Elísson kom þeim átta mörkum yfir, 31-23, þegar sjö mínútur voru eftir. Þá var björninn unninn. Ísland komst aftur átta mörkum yfir, 32-24, en Slóvenía skoraði síðustu tvö mörk leiksins og að endingu munaði því sex mörkum á liðunum, 32-26.

Íslenska liðið sýndi framúrskarandi kafla í leiknum í kvöld en datt síðan niður á ansi lágt plan. Það gerði þó vel í að vinna sig út úr vandræðunum og klára leikinn með sannfærandi hætti.

Sóknarleikurinn var frábær í fyrri hálfleik en Ísland skoraði aðeins ellefu mörk í þeim seinni. Línuspilið gekk vel og hröðu sóknirnar skiluðu miklu. Vörnin var lengst af fín og Viktor góður í markinu.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira