Sport

„Maður fann and­rúms­loftið breytast“

Valur Páll Eiríksson skrifar
Vignir Vatnar naut sín vel í Katar.
Vignir Vatnar naut sín vel í Katar. Vísir/Sigurjón

Stórmeistarinn Vignir Vatnar Stefánsson naut sín vel innan um stórstjörnur á HM í hraðskák í Katar um áramótin. Hann hafði gaman af stælum Norðsmannsins Magnusar Carlsen.

Vignir er 22 ára og er bæði yngsti og nýjasti stórmeistari landsins, en hann hlaut þann titil árið 2023. Hann hefur farið mikinn síðustu misseri og og fór á HM í hraðskák í Katar undir lok nýliðins árs. Það fór aðeins bratt af stað en hann kom nokkuð sáttur heim með tíu vinninga af 19 í farteskinu.

„Ég var ekki alveg mættur, eigum við ekki orða það svoleiðis? Mér gekk ekki vel í atskákinni, sem er ekki mín sérgrein. Það eru 15 mínútna skákir. Þá er ég annað hvort alltof hraður eða alltof hægur. Það er erfitt að finna jafnvægi í því en í hraðskákinni stend ég góðum fæti“ segir Vignir Vatnar í Sportpakkanum á Sýn.

Frammistaðan fór því batnandi eftir því sem á leið.

„Þá var maður líka orðinn vanur þessu, að tefla með þessum stjörnum þarna. Það var spes augnablik þegar Magnus Carlsen var með níu vinninga og ég með átta. Þá var ég einni skák frá því að mæta honum og hugsaði hvað er í gangi hérna?“ segir Vignir og bætir við:

„Það er svo skrýtið að sjá Carlsen tefla þarna og hvernig hann lætur. Hann ýtti myndatökumanni þarna og þetta var spes allt. En þetta er klárlega að fara að gera aftur og sérstaklega á þetta mót á næsta ári.“

Umræddur Carlsen vakti athygli í heimspressunni vegna framkomu sinnar á mótinu.

„Það er örugglega hægt að búa til svona þriggja mínútna myndband bara af honum á þessu móti. Eins og þegar hann tefldi við Hans Nyman, það var alveg stórkostlegt atvik og þeir með sína sögu sín á milli. Carlsen sakaði hann um svindl og svona. Maður fann andrúmsloftið breytast,“ segir Vignir.

Vignir segir þetta þá stærsta mótið sem hann hafi tekið þátt í. Hann stefnir áfram hærra og ætlar tvímælalaust aftur á mótið að ári.

„Ég hef tekið þátt í Evrópumótunum og allt þetta en sennilega er þetta það stærsta með allar stórstjörnurnar. Planið er að taka þetta á næsta ári líka og standa sig ennþá betur, sérstaklega í hraðskákinni. Sýna að maður sé helvíti öflugur í þeim geira,“ segir Vignir.

Fréttina má sjá í spilaranum að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×