Innlent

Tvennu vísað úr landi

Agnar Már Másson skrifar
Lögreglan greinir frá þessu. Mynd úr safni.
Lögreglan greinir frá þessu. Mynd úr safni. Vísir/Vilhelm

Erlendum karli og konu hefur verið vísað úr landi og bönnuð endurkoma að ósk Útlendingastofnunar með vísan til laga um allsherjarreglu, almannaöryggi eða almannaheilbrigði. Þau voru góðkunningjar lögreglunnar, segir í tilkynningu.

Í fréttatilkynningu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, sem ber yfisrskriftina „Þjófar sendir úr landi“, segir að tveimur erlendum ríkisborgurum, karli og konu, hafi verið vísað brott frá Íslandi og bönnuð endurkoma í fimm ár.

Þetta sé gert samkvæmt ákvörðun Útlendingastofnunar á grundvelli 1., sbr. 2. mgr. 95. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 en lögin kveða á um að heimilt sé að vísa EES-, EFTA-borgara eða aðstandanda hans úr landi ef það telst nauðsynlegt með skírskotun til allsherjarreglu, almannaöryggis eða almannaheilbrigðis.

Fólkið sem umræðir er á fertugs- og fimmtugsaldri og hafði dvalið á Íslandi um tveggja ára skeið og ítrekað komið við sögu lögreglu, segir í tilkynningunni. Það hafi verið sakfellt í héraðsdómi í haust og í byrjun þessa árs fyrir fjölda brota gegn almennum hegningarlögum. Lögreglan greinir ekki frá þjóðerni tvímenninganna. 

Brottvísun samkvæmt þessari lagagrein er leyfileg ef framferði hinna brottvísuðu felur í sér „raunverulega, yfirvofandi og nægilega alvarlega ógn gagnvart grundvallarhagsmunum samfélagsins.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×