Fótbolti

Hetju­dáðir Brahim Diaz halda á­fram í Afríkukeppninni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Brahim Diaz hefur átt frábæra Afríkukeppni og er búinn að skora í öllum fjórum leikjum Marokkó á mótinu.
Brahim Diaz hefur átt frábæra Afríkukeppni og er búinn að skora í öllum fjórum leikjum Marokkó á mótinu. Getty/Fareed Kotb

Real Madrid-leikmaðurinn Brahim Diaz hefur átt frábæra Afríkukeppni með gestgjöfum Marokkó og hann var enn á ný í aðalhlutverki í kvöld.

Diaz skoraði eina mark leiksins þegar Marokkó vann 1-0 sigur á Tansaníu og tryggði sér sæti í átta liða úrslitum keppninnar.

Marokkó er hundrað sætum ofar á heimslistanum og auk þess að heimavelli en baráttuglaðir Tansaníumenn stríddu stressuðum heimamönnum í kvöld.

Mark var dæmt af Marokkómanninum Ismael Saibari vegna rangstöðu á 15. mínútu og það var ekki til að minnka stressið.

Sigurmarkið hjá Diaz kom með skoti úr þröngu færi á 64. mínútu eftir stoðsendingu frá leikmanni Paris Saint-Germain, Achraf Hakimi.

Þetta var fjórða mark Brahim Diaz í keppninni og er hann nú einn markahæstur. Hann hefur skorað í öllum fjórum leikjum liðsins til þessa.

Marokkó mætir sigurvegaranum úr leik Suður-Afríku og Kamerún sem mætast í sextán liða úrslitunum seinna í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×