Um­fjöllun: ÍR-Keflavík 89-86 | ÍR-ingar byrja nýja árið vel

Kári Mímisson skrifar
Grikkinn Dimitrios Klonaras var sjóðheitur í kvöld og munaði miklu um það.
Grikkinn Dimitrios Klonaras var sjóðheitur í kvöld og munaði miklu um það. Vísir/Hulda Margrét

ÍR tók á móti Keflavík í tólftu umferð Bónus-deildar karla í körfubolta nú í kvöld í fyrsta leik liðanna á nýju ári. Eftir afar spennandi leik var það ÍR sem vann dramatískan þriggja stiga sigur eftir að hafa leitt nánast allan leikinn.

Keflavík byrjaði leikinn betur hér í Skógarselinu í kvöld en það varði þó ekki lengi þar sem heimamenn jöfnuðu leikinn um miðjan fyrsta leikhluta og tóku svo í raun öll völd á vellinum eftir það. Munurinn á liðunum í fyrri hálfleik var fyrst og fremst sá að á meðan ÍR-ingar hittu vel fyrir utan þá gekk ekki neitt hjá gestunum í Keflavík sem settu niður eitt af ellefu þriggja stiga skotum sínum í fyrri hálfleik. ÍR tókst hægt og bítandi að auka forystuna en mestur var munurinn 14 stig í fyrri hálfleik. Staðan þegar liðin héldu til búningsherbergja var 54-45.

ÍR hélt uppteknum hætti í þriðja leikhluta og tókst að halda forystunni í kringum tíu stig með Tsotne Tsartsidze og Dimitrios Klonaras fremsta í flokki og í raun stefndi allt í glæsilegan sigur hjá Breiðhyltingum en gestirnir áttu þó eftir að láta að sér kveða.

Keflvíkingar byrjuðu fjórða leikhlutann vel og minnkuðu muninn niður í fjögur stig strax í upphafi hans. Á sama tíma tókst liðinu að herða varnarleikinn til mikilla muna en ÍR-ingar náðu ekki að setja niður í körfu í tæplega átta mínútur. Spennan var mikil á lokamínútum leiksins þar sem bæði liðin reyndu í raun allt sem þau gátu til að koma boltanum ofan í körfuna en það verður að segjast að það gekk afar illa á báðum endum.

Þegar rúmlega mínúta var eftir af leiknum kom Hákon Örn Hjálmarsson ÍR sex stigum yfir með glæsilegum þrist. Keflvíkingar náðu að kvitta strax og munurinn því fjögur stig þegar mínúta var eftir af leiknum. Jacob Falko fór í tvö þriggja stiga skot sem gengu ekki en í bæði skiptin tókst ÍR á einhvern ótrúlegan hátt að hirða fráköstin og taka í leiðinni dýrmætar sekúndur af klukkunni. 

Keflvíkingar þurftu að brjóta í nokkur skipti til að koma ÍR á vítalínuna sem voru þarna búnir að taka einhverjar 40 sekúndur af klukkunni. Falko setti bæði vítin sín niður og munurinn því sex stig þegar tólf sekúndur voru eftir. Hilmar Pétursson gaf gestunum líflínu með því að setja ótrúlegan þrist niður og minnka muninn niður í þrjú stig. 

Keflvíkingar náðu að brjóta strax og það kom í hlut fyrirliðans, Hákonar Arnars, að tryggja ÍR sigurinn en bæði vítin hans fóru forgörðum og því Keflvíkingar með möguleika til að jafna leikinn þegar þrjár sekúndur voru eftir. Egor Koulechov átti lokaskotið en því miður fyrir hann og Keflavík þá gekk það ekki og ÍR fagnaði ótrúlegum sigri. Lokatölur 89-86.

Atvik leiksins

Þessi lokamínúta var auðvitað galin í heild sinni. Seinna vítið hjá Hákoni var alveg hræðilegt og gefur Keflavík tækifæri á að jafna leikinn. Egor er ein besta skyttan í deildinni en það að hafa farið í skotið sem hann fór í með nægan tíma eftir í stað þess að senda á Ólaf Björn eru risamistök.

Stjörnur og skúrkar

Skúrkarnir eru auðvitað bara allt lið Keflavíkur fyrir að hafa tapað þessum leik. ÍR-ingar voru alveg búnir á því og áttu í rauninni ekki neitt inni þarna undir lokin. ÍR skoraði ekki í næstum átta mínútur og setti 10 stig á síðustu 13 mínútum leiksins.

Dimitrios Klonaras og Tsotne Tsartsidze voru annars frábærir fyrir heimamenn í kvöld. Tsartsidze skoraði 21 stig og reif niður 12 fráköst á meðan Klonaras skoraði 31 og tók 10 fráköst.

Dómarinn

Það eru alltaf einhverjir hlutir sem hægt er að benda á og nefna en heilt yfir gerðu þeir félagar þetta vel og þetta væl í stuðningsmönnunum átti alls ekki rétt á sér miða við frammistöðuna.

Stemning og umgjörð

Fín mæting í Skógarselið í kvöld en áhorfendur létu vel í sér heyra og fagna því sennilega ákaft að þurfa ekki að taka annan leik í Seljaskóla.

https://www.visir.is/g/20262824540d/-viljum-gera-at-logu-ad-titlinum-en-thvi-midur-er-thad-ekki-raun-haeft-

Daníel Guðni Guðmundsson þjálfari Keflavíkur.Anton Brink/Vísir

„ÍR liðið spilaði betur en við í kvöld“

Daníel Guðni Guðmundsson, þjálfari Keflavíkur, var að vonum vonsvikinn með tapið í kvöld þegar hann mætti til viðtals.

„ÍR liðið spilaði betur en við í kvöld. Við reyndum allan leikinn að koma okkur inn í þennan leik en þeim tókst að halda forskotinu og eiga bara hrós skilið fyrir það. Þeir voru að hitta mjög vel framan af leik á meðan það gekk illa hjá okkur.“

Það gekk vissulega illa hjá Keflavík framan af leik en liðið náði þó að vinna sig ágætlega inn í leikinn og fékk tækifæri til að jafna undir lokin. Daníel hrósar ÍR fyrir leikinn og segir að þeir séu lið sem erfitt sé að mæta.

„Þeir eru að koma úr hörkuleik gegn Val og sýndu það alveg hér í kvöld að þeir eru öflugir, enda er alltaf erfitt að mæta þeim. Við fengum okkar tækifæri hér undir lok leiksins en því miður fyrir okkur þá gekk það ekki að þessu sinni.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira