Fótbolti

Mané lagði upp tvö og Senegal fyrsta liðið í átta liða úr­slit

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sadio Mané var allt í öllu þegar Senegal komst áfram í útsláttarkeppni Afríkumótsins í kvöld.
Sadio Mané var allt í öllu þegar Senegal komst áfram í útsláttarkeppni Afríkumótsins í kvöld. Getty/Visionhaus

Senegal varð í kvöld fyrsta liðið til að tryggja sér sæti í átta liða úrslitum Afríkukeppninnar í ár.

Senegal vann 3-1 sigur á Súdan í fyrsta leik sextán liða úrslitanna.

Pape Gueye, leikmaður Villarreal, og Ibrahim Mbaye, efnilegur leikmaður Paris Saint Germain, skoruðu mörkin fyrir Senegal í sigrinum.

Súdanar komust reyndar í 1-0 eftir aðeins sex mínútna leik en Senegalar voru komnir yfir fyrir hálfleik.

Pape Gueye skoraði bæði mörk Senegal í fyrri hálfleik, það fyrra á 29. mínútu eftir undirbúning Sadio Mané en það seinna í uppbótartíma fyrri hálfleiks eftir sendingu frá Nicolas Jackson.

Mané lagði síðan upp þriðja markið fyrir Ibrahim Mbaye á 77. mínútu.

Aamir Abdallah hafði komið Súdan óvænt yfir með frábæru marki í upphafi leiks.

Sadio Mané var aðalmaðurinn að baki viðsnúningi Senegal. Auk tveggja stoðsendinga skapaði hann fimm færi, vann sex af 11 einvígjum sínum, endurheimti boltann sjö sinnum og átti nítján heppnaðar sendingar á síðasta þriðjungi vallarins, en hann var fremstur sinna manna í öllum þessum tölfræðiþáttum.

Senegal mætir annaðhvort Malí eða Túnis í átta liða úrslitum en þau mætast seinna í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×