Innlent

Stærð­fræði­kennarinn Stein sækist eftir fjórða sæti

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Stein Olav Romslo vill fjórða sæti á lista Samfylkingarinnar í borginni. 
Stein Olav Romslo vill fjórða sæti á lista Samfylkingarinnar í borginni.  Thomas Kolbein Bjørk Olsen

Stein Olav Romslo, 32 ára stærðfræðikennari í Hagaskóla, sækist eftir fjórða sæti í prófkjöri Samfylkingarinnar í Reykjavík.

Hann greinir frá framboðinu á Facebook. Stein Olav og Bjarnveig Birta Bjarnadóttir, rekstrarstjóri Tulipop, voru sigurvegarar forprófkjörs Hallveigar – ungs jafnaðarfólks í Reykjavík í desember. Bjarnveig Birta fékk 268 atkvæði og Stein Olav Romslo 260 atkvæði.

Bjarnveig Birta tilkynnti á nýársdag að hún gæfi kost á sér í annað sæti í prófkjörinu. 

Síðustu ár hefur Stein Olav gegnt ýmsum hlutverkum innan Samfylkingarinnar, svo sem stjórnarsetu í Samfylkingarfélaginu í Reykjavík og í framkvæmdastjórn flokksins. Stein Olav er í dag ritari framkvæmdastjórnar Samfylkingarinnar. Hann gegndi einnig stöðu formanns íbúaráðs Vesturbæjar þangað til íbúaráðin voru lögð af síðasta vor.

„Sem kennari tek ég með mér dýrmæta reynslu og þekkingu úr skólakerfinu. Við verðum að taka betur og fyrr utan um börn og ungmenni, sérstaklega þau sem eru í viðkvæmri stöðu. Það er mitt helsta forgangsmál. Gott fyrsta skref væri að tryggja aðgengi að sálfræðingum innan veggja skólanna sem sinna lágþröskuldaþjónustu,“ er haft eftir Stein í framboðstilkynningu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×