Innlent

„Flestum þykir vænt um bóndann“, segir for­maður Bænda­sam­takanna

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Trausti Hjálmarsson, formaður Bændasamtakanna í pontu á fundinum á Flúðum.
Trausti Hjálmarsson, formaður Bændasamtakanna í pontu á fundinum á Flúðum. Magnús Hlynur Hreiðarsson

„Flest öllum þykir vænt um bóndann, bóndann sem er á bak við matvælin, bóndann sem er á bak við Bændasamtökin en rosalega mörgum er illa við kerfið”, segir formaður Bændasamtaka Íslands og vísar þar í að landsmenn þurfi að tengja við íslenska bændur þegar keypt eru íslensk matvæli í verslunum.

Trausti Hjálmarsson formaður Bændasamtakanna var nýlega á ferðinni um landið í sérstakri fundarherferð samtakanna, ásamt nokkrum starfsmönnum þeirra þar sem fundað var með bændum um málefni landbúnaðarins. Einn slíkur fundur var haldinn á Flúðum þar sem Trausti lagði áherslu á hvað flestum landsmönnum þyki vænt um bændur enda fóru Bændasamtökin í sérstaka auglýsingaherferð síðasta vor undir yfirskriftinni „Við erum öll úr sömu sveit“.

Nokkrir af þeim bændum sem mættu á fundinn.Magnús Hlynur Hreiðarsson

„Og tilgangurinn var fyrst og síðast sá að koma Bændasamtökunum betur á framfæri og koma bændasamfélaginu betur á framfæri og tengja aftur neytendur og almenning við sveitina vegna þess að við höfum fundið það mjög glöggt í okkar starfi að öllum, flest öllum að minnsta kosti, þykir vænt um bóndann, bóndann sem er á bakvið matvælin, bóndann sem er á bak við Bændasamtökin en rosalega mörgum er illa við kerfið. Þetta er kannski ekkert kerfið en þeim er bara illa við það af því að það er búið að segja þeim að það sé rosalega slæmt fyrir okkur,” sagði Trausti á fundinum.

Og þetta sagði formaðurinn líka þegar Bændasamtökin eru annars vegar í umræðunni.

„Þegar Bændasamtökin tala og það sem kemur frá Bændasamtökunum á að vera til þess að fólk fái þennan snertiflöt að það sé að taka þátt í verðmætasköpun í íslenskri matvælaframleiðslu, að kaupa íslensk matvæli, að tengja við bændurna og það sem Bændasamtökin segja er rödd bóndans, ekki bara samtaka eða fyrirtækis.”

Ein af glærunum, sem Trausti varpaði upp á fundinum.Magnús Hlynur Hreiðarsson



Fleiri fréttir

Sjá meira


×