Sport

Luke Littler reykspólaði yfir Pólverjann og inn í undanúrslitin

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Luke Littler átti ekki í miklum vandræðum með að fara áfram í kvöld en getumunurinn var mikill á honum og andstæðingnum.
Luke Littler átti ekki í miklum vandræðum með að fara áfram í kvöld en getumunurinn var mikill á honum og andstæðingnum. Getty/Steven Paston

Heimsmeistarinn Luke Littler tryggði sér sæti í undanúrslitum og leik á móti Ryan Searle með afar léttum og sannfærandi sigri á Krzysztof Ratajski í átta manna úrslitunum á heimsmeistaramótinu í pílukasti í kvöld.

Hinn átján ára gamli Littler fékk að kynnast aðeins óvinsemd áhorfenda í fyrsta sinn í leiknum á móti Rob Cross í sextán manna úrslitutunum en afgreiddi verkefni kvöldsins af mikilli fagmennsku.

Littler vann öll fimm settin í leiknum og það var bara mikill getumunur á þessum tveimur pílukösturum í kvöld.

Það þurfti því engan stórleik frá honum til að vinna svo sannfærandi. Nokkrum sinnum leit út fyrir að hann ætlaði í níu pílu legg en hann náði því ekki að þessu sinni, ekki frekar en neinn annar á þessu móti til þessa.

„Þetta er svindkarl,“ sagði Páll Sævar Guðjónsson í útsendingunni á SÝN Sport Viaplay og það er hægt að taka undir það.

„Luke Littler reykspálaði yfir Krzysztof Ratajski í þessum leik. Pólverjinn var búinn að spila svo vel en það var alveg morgunljóst að hann mætti ofjarli sínum í kvöld. Þetta voru fáheyrðir yfirburðir,“ sagði Páll Sævar.

Littler hefur unnið 19 af 21 setti sínu á mótinu alveg eins og mótherji hans á morgun, Ryan Searle.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×