Innlent

Vill annað sætið hjá Sam­fylkingunni í borginni

Atli Ísleifsson skrifar
Bjarnveig Birta Bjarnadóttir.
Bjarnveig Birta Bjarnadóttir.

Bjarnveig Birta Bjarnadóttir, rekstrarstjóri Tulipop, hefur ákveðið að gefa kost á sér í 2. sæti í prófkjöri Samfylkingarinnar sem fram fer þann 24. janúar næstkomandi.

Í tilkynningu segir að Bjarnveig Birta sé 33 ára viðskiptafræðingur og stjórnandi. Hún starfi hjá íslenska framleiðslufyrirtækinu Tulipop en starfaði áður hjá HSE Consulting. 

„Bjarnveig Birta er með B.Sc. gráðu í viðskiptafræði og M.Sc. gráðu í stjórnun og stefnumótun frá Háskóla Íslands.

Bjarnveig Birta sigraði í ungliðaprófkjöri Hallveigar, félags ungs jafnaðarfólks í Reykjavík í byrjun desember, þar sem hún og Stein Olav Romslo voru valin til að verða fulltrúar ungs fólks og fá því stuðning félagsins í prófkjöri Samfylkingarinnar fyrir borgarstjórnarkosningarnar.

Bjarnveig Birta ólst upp í Breiðholti en býr í dag í Rimahverfi Grafarvogs ásamt eiginmanni sínum, Pétri Frey Sigurjónssyni og þremur börnum sem eru 2, 5 og 6 ára,“ segir í tilkynnunni. 

Vill bjóða upp á endurnýjun

Haft er eftir Bjarnveigu Birtu að hún bjóði sig fram þar sem hún vilji bjóða kjósendum upp á endurnýjun. „Það vantar fleiri fulltrúa venjulegra borgarbúa, fólk sem hefur ekki verið á kafi í pólitík. Það skortir sárlega raunhæfar lausnir og fólk sem þekkir vandamálin af eigin raun til að stýra borginni, “ segir Bjarnveig Birta.

„Við vitum hvað þarf að gera. Við þurfum að fjölga leikskólastarfsfólki og laða hæft fólk í störf á leikskólum. Ég á tvö börn á leikskólaaldri og ég þekki það á eigin skinni hversu mikið flækjustig það er fyrir foreldra þegar leikskólakerfið virkar ekki. Það þarf líka að huga að vellíðan ungmenna í borginni og stíga fastar til jarðar þegar kemur að áhættuhegðun. Við þurfum svo að hraða húsnæðisuppbyggingu og ráðast strax í að skipuleggja stærri uppbyggingarsvæði svo hægt sé að byggja meira, hraðar og á hagkvæmari hátt. Við þurfum Reykjavík sem virkar. Sterk samneysla, kjarninn í jafnaðarstefnunni, byggir á því að reksturinn sé í lagi og fjármunir séu nýttir á ábyrgan hátt,“ segir Bjarnveig Birta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×